Þaratöflur á meðgöngu

06.10.2010

Hæ og takk fyrir góðan vef.

Þannig er að ég og maðurinn minn erum búin að vera að reyna að eignast barn í 1 ár. Það hefur tekist þrisvar sinnum en alltaf misst. Ég hef aldri komist lengra en 7 vikur og er búin að missa núna þrisvar sinnum á 9 mánuðum :( Spurningin mín er þessi: Má borða þaratöflur á meðgöngu? Ég er búin að vera að taka þær í ca. 18 mánuði og datt allt í einu í hug hvort að það gætu verið þær sem eru að orsaka fósturlátin.

Kveðja, Valkyrjan.


Sæl Valkyrja!

Leitt að heyra af þessu. Það er mjög ólíklegt að þaratöflur séu orsök fósturlátanna.

Þari er mjög næringarríkur og inniheldur mikið af vítamínum og steinefnum. Þari er talinn vera góður fyrir frjósemi og heilsuna almennt og á að vera sérstaklega góður fyrir barnshafandi konur. Þari á að vera góður fyrir meltinguna, auka orku, fyrirbyggja hægðatregðu, bakverki, blóðleysi, gyllinæð og jafnvel þunglyndi. Svo á þari að vera góður fyrir húð, hár og bein.

Þegar verið er að taka inn vítamín og bætiefni á meðgöngu er rétt að skoða vel innihaldslýsingar því það er almennt ekki mælt með því að taka inn meira en ráðlagða dagsskammta (RDS) af vítamínum og steinefnum á meðgöngu og eina vítamínið sem mælt er með fyrir allar barnshafandi konur er fólínsýra.

Nú þegar þú hefur misst fóstur þrisvar sinnum í röð er líklega kominn tími til að gera rannsóknir til að finna mögulegar ástæður. Þó er rétt að taka það fram að orsök finnst aðeins í um 25-50% tilfella og því er orsök ókunn í 50-75%tilfella. Talið er að erfðafræðileg vandamál séu orsökin í um 13% tilfella af síendurteknum fósturlátum.

Vona að þú þurfir ekki að upplifa fósturlát aftur.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
6. október 2010.