Spurt og svarað

15. október 2006

Þarf maður að vera í einhverjum áhættuflokki til að fá snemmsónar?

Sælar og takk fyrir frábæran vef.

Ég er að hefja mína 7.viku og er ólétt í fyrsta sinn. Ég fór til heimilislæknis sem að sagði mér að bíða þangað til í 12.viku með að fara í mæðraskoðun en ég hef áhyggjur af fósturláti og því langar mig að fara fyrr og láta athuga með hvort það sé ekki allt í lagi með okkur. Ég er með góð einkenni óléttu og allt það en þegar maður er svona nýr í þessu öllu saman á maður erfitt með að bíða. Vinkona mín er komin 14.vikur núna og hún fór í snemmsónar en það var sagt við hana að það væri vegna hættu á fósturláti. Mig langar til að vita hvort maður þurfi að vera í einhverjum hættuflokki til að fá snemmsónar eða er það möguleiki fyrir mig einnig?

Kveðja, Glæný verðandi mamma.


Sæl og til hamingju með þungunina!

Það er þitt val hvort þú ferð í snemmsónar til að fá staðfestingu á þungun eða ekki, þú þarft ekki að vera í sérstökum áhættuhóp til að fara í slíka skoðun. Ef þú hefur hug á slíkri skoðun þá þarft þú að panta þér tíma hjá kvensjúkdómalækni á stofu og greiða fyrir skoðunina.

Algengustu ábendingar fyrir snemmómskoðun á fyrstu 6-12 vikunum eru blæðing, verkir, óviss meðgöngulengd, leg er stærra eða minna en áætluð meðgöngulengd og mjög mikil ógleði. Skoðað er hvort fóstursekkur sé í leginu þannig að ef sérstök áhætta er á utanlegsþungun er mælt með snemmsónarskoðun. Hægt er að meta stærð fósturs, athuga hvort hjartsláttur sé til staðar o.fl.

Þú getur líka athugað hvort ljósmóðirin sem þú ætlar að vera hjá í mæðravernd bjóði ekki upp á símatíma því þá getur þú hringt í hana og leitað ráða. Það er í raun ekkert sem við ljósmæður getum skoðað á þessum tíma, t.d. er ekki hægt að heyra fósturhjartsláttinn strax. Það getur hins vegar verið gagnlegt að ræða við ljósmóður á þessum tíma og fá ráð varðandi mataræði, vítamín, ráð við ógleði o.fl.

Gangi þér vel

yfirfarið 28.10.2015

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.