Spurt og svarað

27. mars 2011

Þjálfun, orkudrykkir, fetaostur

Hæ,hæ!

Ég er komin 5 vikur á leið og hef alltaf verið rosalega dugleg að æfa. Áður en ég varð ófrísk fór ég 5-6 sinnum í viku í spinning eða skipti af og til út æfingu fyrir ketilbjöllur. Eftir að ég varð ófrísk þá finnst ég finna meira fyrir leginu og fæ þessa svokölluðu togverki. Það varð til þess að ég er búin að hægja töluvert á mér í ræktinni. Þegar ég fer að æfa þá finn ég meira fyrir leginu. Er þetta eðlilegt? Ég fæ enga verki, heldur frekar tilfinningu um að vera útblásin. Einnig langaði mig að spyrja hvernig á maður að finna hvort maður sé að ganga of langt? Mér finnst ég eiga stundum erfitt með að passa mig því ég er með svo gott þol fyrir.
 
Hafa harðsperrur eða mjólkursýrur slæm áhrif á fóstur? Mega þungaðar konur drekka prótein drykki eða orkudrykki? Hvernig æfingar eiga þungaðar konur alveg að sleppa? T.d. má gera magaæfingar og bakæfingar? Svo ein varðandi matarræði. Ég las að það mætti ekki borða Feta ost. Er þetta rétt? Mætti nota hann í rétti þar sem hann er eldaður í gegn t.d. ofan á pizzu í pizzaofni?Afsaka allar spurningarnar en það er svo erfitt að finna áreiðanleg svör.

:)kær kveðja,Stelpan

 


 

Sæl og blessuð!

Það er alveg eðliegt að finnast þú vera útblásin eða þanin, það er oft fyrstu einkennin sem maður finnur á maganum á sér. Konur sem eru í góðu formi og hafa æft mikið áður en þær urðu þungaðar, geta alveg haldið áfram að æfa en aðalatriðið er að HLUSTA VEL Á LÍKAMANN SINN, ef þér finnst einhverjar æfingar óþægilegar þá sleppir þú þeim og finnur einhverjar aðrar í staðin. Ég efast um að þú getir gengið of langt en passaðu þig að drekka mjög vel á meðan þú ert að æfa og eftir æfinguna, það er náttúrulega alltaf mikilvægt en ennþá mikilvægara fyrir þungaðar konur.

Harðsperrur og mjólkursýrumyndun í vöðvum hafa ekki áhrif á fóstrið.

Varðandi prótein og orkudrykki þá eru þeir nú mjög margir og misjafnir á markaðnum. Margir þeirra innihalda allskonar aukaefni sem eru ekki endilega besta næringin fyrir þungaðar konur. Sumir eru ekki í lagi og aðrir eru sennilega allt í lagi. Búðu þér frekar til þinn eigin orkudrykk í mixaranum heima, þá veistu a.m.k. alveg hvað þú ert að setja ofan í þig :)

Magaæfingar og bakæfingar eru í góðu lagi svo lengi sem þér finnst þú geta gert þær, þegar þú ert lengra komin í meðgöngunni þá kemur það svolítið af sjálfu sér að þú finnur hvað er ekki gott að gera.

Feta ostur er  í góðu lagi fyrir þungaðar konur.


Með bestu kveðju,

Halla Björg Lárusdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir,
27. mars 2011.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.