Þörf fyrir myntu

10.12.2007

Sæl!

Ég er gengin 30 vikur og undanfarnar 2-3 vikur hef ég verið gjörsamlega óð í piparmyntutyggjó, brjóstsykur eða „breathmints“.  Ég get farið með heilan poka á dag t.d. af hálsbrjóstsykur (sem er sykurlaus reyndar).  Getur þetta verið hættulegt barninu?  Hver er skýringin á þessari ofsalegu þörf fyrir myntunni?  Er einnig alveg brjáluð í öll hreinsiefni og bursta tennurnar 5-6 sinnum á dag, bara til að finna fyrir bragðinu og tilfinningunni að ég sé fersk í munninum.


Komdu sæl

Rannsóknir sýna að allt að 68% kvenna finna fyrir þörf í eitthvað sérstakt á einhverjum tímapunkti meðgöngunnar.  Ef þörfin beinist að einhverjum mat eða í þessu tilviki sælgæti þá er það venjulega ekki hættulegt barninu.  Það hvað konur finna þörf fyrir er mjög mismunandi og hefur ekki endilega neitt með það að gera hvað líkaminn þarfnast, nema kannski þegar þetta er það eina sem konan heldur niðri vegna mikillar ógleði og uppkasta sem er ekki í þínu tilviki að mér skilst.

Það eru ekki til neinar einhlítar skýringar á því af hverju konur finna fyrir þörf í eitthvað sérstakt á meðgöngu en hluti af skýringunni getur verið sálfræðilegur þ.e. þú ert ólétt og veist að margar konur finna fyrir þessu og því lætur þú eftir þér það sem þig langar í.  Það er hugsanlegt að eitthvað sé vegna þess að líkaminn þarf á vissum efnum að halda en það fer þá líka eftir því hver þörfin er.  T.d. þörf fyrir appelsínur ef þig vantar C- vítamín.  Sumir telja reyndar að þetta geri verið vegna járnskorts og því getur verið gott að tala um þetta við ljósmóðurina þína.

Svona mikil þörf í eitthvað sérstakt getur verið hættuleg ef hún nær yfirhöndinni, þ.e. þú hættir að borða hollan og fjölbreyttan mat og nærist eingöngu á þessu eða þörfin beinist að hættulegum efnum sem þú ættir ekki að láta ofan í þig.

Vona að þetta svari spurningunni.

Kveðja,

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
10.desember 2007.