Þorsti og tíð þvaglát

28.06.2009

Sælar og takk fyrir frábæra síðu.

Ég er komin 20 vikur á leið og síðustu tvær vikur hef ég verið alveg rosalega þyrst. Ég er alltaf þyrst og drekk a.m.k. 3 lítra af vatni á dag. Verst er ég þegar ég vakna og fyrri part dags, þá má ég ekki skilja vatnsflöskuna við mig. Fyrir utan að það er óþægilegt að vera sífellt þyrst þá fylgja þessu að sjálfsögðu stöðugar klósettferðir. Í fyrsta lagi var ég að velta fyrir mér hvort þetta væri eitthvað sem ég ætti að hafa áhyggjur af? Í öðru lagi hvort það væri eitthvað sem ég get gert til að minnka/koma í veg fyrir þetta? Vil þá taka fram að ég borða ekki mikið af söltum mat og finn ekki sérstaklega fyrir þessu eftir að ég borða.

Enn og aftur takk fyrir frábæra síðu.

Með kveðju, Helga þyrsta.


Sæl Helga!

Þorsti og tíð þvaglát geta vissulega verið eðlileg en það er þó rétt að þú hafir samband við ljósmóðurina þína og fáir að koma í aukaskoðun. Það væri a.m.k. gott að kanna blóðþrýsting og púls og athuga hvort það sé sykur í þvagi hjá þér því þorsti og tíð þvaglát geta verið merki um byrjun á sykursýki.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
28. júní 2009.