Spurt og svarað

02. ágúst 2011

Þrálát sveppasýking

Halló!

Ég er komin 35 vikur á leið og hef verið að kljást við sveppasýkingu síðan á 15 viku. Ég er búin að prófa hitt og þetta til að losna við sýkinguna, ýmist í samráði við ljósmóður eða eftir ráðleggingar frá öðrum. Ég hef notað Pevaryl, Canesten, Kvennaþrennu frá Urtasmiðjunni, Fótagaldur frá Villimey, Aloe Vera gel frá Volare og Vivag skeiðarstíla. Auk þess drekk ég oftast AB-mjólk á hverjum degi, hef leitast við að borða minna af matvörum sem innihalda mikið af sykri eða geri, sef nakin og jafnvel án sængur og er oft buxnalaus heima við svo það lofti um að neðanverðu. Af og til losna ég við einkennin (sviða, kláða, óþægindi, rauða slímhúð, útferð) í einhverja daga en svo blossa þau upp aftur og sami vítahringurinn hefst.  Eins finnast mér einkennin stundum versna þegar ég ber á mig einhver krem og hef því velt fyrir mér hvort slímhúðin sé orðin of viðkvæm og ónæm fyrir öllum þessum kremum. Ég er farin að hafa verulegar áhyggjur af því að ég muni ekki losna við sveppasýkinguna fyrir fæðingu og það er ekkert sérlega góð tilhugsun að þurfa að þola sviða og kláða samhliða hríðarverkjunum. Eins skilst mér að barnið gæti smitast í fæðingunni og fengið þrusku í munninn sem síðan gæti smitast yfir í geirvörturnar mínar við brjóstagjöfina. Mig langar ekki að standa í svoleiðis veseni. Því spyr ég: Er eitthvað sem hægt er að gera til að tryggja að ég losni við sveppasýkinguna sem allra allra fyrst? Eru til einhverj lyf við sveppasýkingu sem hægt er að fá uppáskrifuð hjá lækni?

Með fyrirfram þökk fyrir hjálpina.

Ein ráðþrota


Komdu sæl.

Því miður er það stundum þannig að ekki tekst að losna við svona þráláta sveppasýkingu þrátt fyrir að ýmislegt sé reynt.  Þú hefur greinilega reynt allt nema lyfjagjöf en hún er venjulega ekki ráðlögð fyrr en eftir fæðingu.

Þú gætir reynt að fara til kvensjúkdóma og fæðingalæknis sem vill kannski taka sýni frá þér og skoða þig.

Gangi þér vel.

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
2. ágúst 2011.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.