Þrengri leggöng

05.02.2015

Hæhæ :-) Ég er gengin tæpar 36 vikur með fyrsta barn og upp á síðkastið þegar við kærastinn höfum stundað kynlíf, þá talar hann mikið un að ég sé orðin þrengri þarna niðri. Eins hef ég fundið fyrir þessu sjálf og líður stundum eins og ég sé að missa meydóminn í hvert skipti. Ég fór bara að velta því fyrir mér hvort þetta sé rugl í mér eða líkaminn eitthvað að undirbúa sig? Kv. Frumbyrjan

 
 Heil og sæl frumbyrja, mér finnst langlíklegast að þú sért orðin frekar þrútin að neðan. Það er eðlilegt og margar  konur finna fyrir því. Stundum er það greinilega sýnilegt með berum augum og ytri kynfærin eru áberandi stærri en fyrir meðgönguna.  Það er eðlilegt að þrútna í lok meðgöngunnar á öllum líkamanum, hringar verða þröngir á fingrum og skór þrengri en vanalega – eins taka margar eftir þrota á augnlokum og vörum.  Við förum svo að tala um bjúg þegar þessi þroti er orðinn mun meiri og meira áberandi.  Það getur líka verið eðlilegt en þarf samt að skoðast vel og ljósmóðirin þín í mæðraverndinni metur það.  Gangi þér vel.


Bestu kveðjur
Áslaug V.
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
5. feb. 2015