Spurt og svarað

08. mars 2011

Þreyta og andleg vanlíðan

Sælar og takk fyrir gagnlega síðu.

Ég er komin rúmar 16 vikur á leið, fyrsta barn, og allt hefur gengið ágætlega, ógleði án uppkasta og allt í himnalagi í skoðunum og sónar. Það sem er að trufla mig er þreytan sem fór að hrjá mig strax í byrjun meðgöngu (5-8 viku). Ég svaf og svaf, stundum tíu til ellefu tíma á nóttu (auk lúra yfir daginn) en var samt algjörlega örmagna allan daginn án þess að eitthvað mikið gengi á.  Lagðist bara í sófann þegar ég kom heim og lét mannin minn um heimilisstörfin, rétt stóð upp til að borða en lagðist svo bara aftur. Þreytunni fylgir depurð og leiði, framtaksleysi og algjört metnaðarleysi, mig langar að leggjast niður allsstaðar og kvíði fyrir því að þurfa að vakna þegar ég loksins legg höfuðið á koddann. Ég las að þetta myndi lagast í kring um tólftu viku en þetta hefur bara versnað, ég er algjörlega búin á því, hef mig varla fram úr rúminu á morgnanna, þarf að sannfæra sjálfa mig um að ég geti nú alveg staðið upp og ristað mér eina brauðsneið, sem virðist stundum óyfirstíganleg hindrun o.s.frv.  Ég fer að gráta yfir minnstu smáatriðum, eins og því að þurfa að fara út úr húsi/elda/læra/svara í símann o.s.frv., finnst það
bara svo mikið mál. Þegar ég loksins kem mér í að gera eitthvað gerist allt mjög hægt og stundum hætti ég bara í miðjum klíðum afþví mér finnst ég ekki geta meir.  Ég er alveg týnd, komin svona stutt og er algerlega út úr kortinu heima, í skólanum og vinnunni. Er alveg heilsuhraust og vel á mig komin, með fullt af járni, borða hollt og reglulega og er með ágæta matarlyst og allt kemur glimrandi út hjá ljósmóðurinni. Í hreinskilni sagt er ég alveg úrræðalaus og vantar hjálp.
Hvað er eiginlega að? Eru þetta hormónarnir sem eru að fara svona illa með mig eða eitthvað annað?  Og er hægt að fá hjálp einhversstaðar og þá hvar?Komdu sæl.

Það er leiðinlegt að heyra að þér líði svona illa.  Vissulega getur þetta verið eðlilegt upp að vissu marki og ætti þá að fara að lagast hvað úr hverju.  Ef þér finnst þetta versna eins og þú talar um ættir þú að ræða þetta við ljósmóðurina þína og lækninn þinn (heimilislækni), sem geta hjálpað þér eða vísað þér áfram á þá hjálp sem hentar.

Kveðja

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
8. mars 2011. 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.