Þriðja barn og fyrirburar

19.04.2011

Sælar elsku ljósmæður!

Ég geng með þriðja barnið mitt. Hin tvö fæddust fullmeðgengin og engir kvillar komu upp við hvoruga meðgöngu. Nú er ég búin að liggja yfir reynslusögunum á LÍF vefnum með tárin í augunum. Þar er hver fyrirburasagan á fætur annarri af konum sem eru að eiga sitt þriðja barn. Það er ekki laust við að það fari um mann. Er algengt að þriðja barn komi fyrir tímann? Hvað veldur? Er ástæða til að taka því enn rólegra á þriðju meðgöngu?


Sæl!

Mesta hættan á fyrirburafæðingu er hjá konum sem ganga með fjölbura, hafa áður fætt fyrirbura eða eru með óeðlilega lögun á legi. Samkvæmt þeim upplýsingum sem þú gefur þá eru þessir áhættuþættir ekki til staðar hjá þér. Nú veit ég ekki hversu langt er síðan þú fæddir síðast en það eykur líka aðeins líkurnar á fyrirburafæðingu ef stutt er á milli barna, þ.e. 6-9 mánuðir frá fæðingu að næstu meðgöngu.

Vona að þú njótir meðgöngunnar og að allt gangi vel.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
19. apríl 2011.