Spurt og svarað

22. apríl 2013

Fyrirferð í leggöngum

Ég átti barn fyrir 4 vikum síðan og í fæðingunni blæddi alveg svakalega mikið (komu alveg blóðkekkir) og ljósan skildi ekki hvaðan blóðið var að koma, en annars gekk allt rosalega vel og fljótt fyrir sig. En þessi fæðing var mun sársaukafyllri heldur en sú fyrsta (þetta var barn nr 2 hjá mér). En barnið var fyrir framan grind en ekki fyrir aftan (eða öfugt) og kom ekki með hnakkann fyrst og því var þetta verra heldur en áður. En fljótlega eftir fæðinguna þá var ég oft að finna fyrir einhverju í klofinu á mér, eins og eitthvað væri að stingast út úr því, nema ég pældi ekkert rosalega mikið í þessu. En í gær ákvað ég að taka spegil og kíkja á þetta og þá er einhver flipi eða poki sem er í klofinu á mér. Vitið þið hvað þetta getur verið, er þetta eitthvað sem er ,,eðlilegt" ?

Sæl

Til hamingju með barnið. Það sem þú lýsir gæti verið svokölluð framhöfuðstaða, þá vísar andlit barnsins upp í átt að lífbeini móður en ekki að baki hennar þegar kollurinn fæðist. Þessi staða veldur venjulega aðeins meiri sársauka í fæðingunni og hún getur tekið lengri tíma. Það er ekki gott að segja til um hvort þetta sé eitthvað sem er eðlilegt eða ekki. Ég ráðlegg þér að leita til kvensjúkdómalæknis og fá tíma í skoðun. Stundum getur komið sig á leghálsinn í fæðingu og hann þá legið niður í leggöngin en það á að jafna sig fljótt. Ég mæli einnig með að þú gerir grindarbotnsæfingar nokkrum sinnum á dag, það getur hjálpað.

Gangi þér vel.

Með bestu kveðju,
Signý Dóra Harðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
22. apríl 2013.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.