Þrútnir barmar

22.10.2006
Langaði að spyrja hvort eðlilegt sé að skapabarmar stækki/þrútni á meðgöngu. Ég er komin 28 vikur á leið og tók eftir þessu fyrir rúmum mánuði. Er með aukna útferð en ekki kláða né sviða.

Komdu sæl og takk fyrir fyrirspurnina.
 
Já það er alveg eðlilegt að skapabarmarnir stækki á meðgöngunni og fyrir því liggja að minnsta kosti þrjár ástæður.  Í fyrsta lagi verður aukið blóðstreymi á þessu svæði sem getur valdið bólgu í skapabörmunum.  Eftir því sem líður á meðgönguna eykst þrýstingur niður og barmarnir þrútna enn meira og í síðasta lagi þá bæta flestar konur á sig einhverjum kílóum á meðgöngunni sem eðlilegt er, en einhver grömm setjast kannski þarna líka.  Hafðu engar áhyggjur af þessu þetta er eðlilegt og lagast aftur eftir fæðinguna.
 
Bestu kveðjur
 
Yfirfarið  28.10.2015