Spurt og svarað

01. febrúar 2020

Sársauki við kynlíf eftir fæðingu

Hæhæ, ég átti barn fyrir 6 mánuðum og ég var klippt í fæðingunni og þurfti þar af leiðandi að sauma. Það hefur gróið ágætlega (for í skoðun 6 vikum seinna hjá lækni) sem sagði að þetta liti vel út það hefði bara eitt spor losnað. Um daginn stundaði ég svo í fyrsta skipti kynlíf síðan ég átti barnið og það var hræðilega vont! Sársaukinn var mikill og eftir á blæddi smávegis og mig sveið þegar ég pissaði. Ég hef ekki þorað að stunda kynlíf síðan. Er þetta eðlilegt eða þarf ég að láta kíkja á mig aftur?

Sæl, algengt er að konur finni fyrir sársauka við kynlíf eftir fæðingu. Algengasta ástæðan er þurrkur í leggöngum, þá helst ef barnið er á brjósti. Hormón sem losna við brjóstagjöfina geta valdið þurrki í leggöngum, sem getur valdið sársauka við kynlíf, þá hjálpar að nota sleipiefni.

Jafnframt er eðlilegt að finna fyrir óþægindum þegar stundað er kynlíf í fyrsta sinn eftir fæðingu þó að svo langur tími sé liðinn. Mikilvægt er að þið talið saman, gefið ykkur tíma, farið varlega og á þínum hraða. Oft þarf nokkur skipti áður en það hættir að vera vont. Smávegis blæðing er líka eðlileg í fyrstu skiptin. Ef þetta jafnar sig ekki með tímanum og fjölda samfara, mæli ég með að þú pantir þér tíma hjá kvensjúkdómalækni.

Kær kveðja, Hafdís Guðnadóttir, ljósmóðir.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.