Spurt og svarað

29. október 2007

Þungun rétt eftir fóstureyðingu

Ég vona svo sannarlega að þú getir gefið mér svör.  Málið er að þann 13. sept síðastliðinn fór ég í fóstureyðingu.  Ég vil taka fram að ég er gift 2ja barna móðir, upp komu erfiðar aðstæður í hjónabandiku og tókum við í sameiningu þá ákvörðun að eignast ekki barnið.  Ég byrjaði á pillunni Diane Mite ca 4 dögum eftir fóstureyðinguna.  Mér  var sagt að þetta væri mjög sterk pilla og að hún virkaði frá fyrsta degi.  Nú er kominn 13. okt og ég kláraði pilluspjaldið á miðvikudaginn síðastliðinn.  Það er byrjað að koma smá blóð en ekki mikið.  Ég keypti þungunarpróf til vonar og vara og það kom út jákvætt!  Ég er í sjokki. Og við bæði.  Ég hef alls ekki hugsað mér að fara í aðra fóstureyðingu, þetta var hræðileg lífsreynsla en að halda þessu barni gerir hina fóstureyðinguna svo tilgangslausa. En mín spurning er hvort það sé líklegt að þetta sé bara false alarm?  Getur verið að hún komi jákvæð út eftir svona langan tíma frá fóstureyðingunni?  Hvenær og hvar kemst ég að í sónar til að fá svör hvort þetta sé rétt?  Ég á að byrja aftur á pillunni á miðvikudaginn en ég þori því ekki ef ég er ófrísk, skaðar pillan ekki fóstrið?  En ef ég er ófrísk og búin að vera að taka pilluna þennan mánuðinn getur verið að fóstrið sé skaddað?  Vonandi getur þú svarað mér.


Komdu sæl og fyrirgefðu hvað svarið kemur seint.

Ég átti í svolitlum erfiðleikum með að lesa bréfið frá þér þar sem mikið af táknum kom í stað stafa en ég vona að það sem ég las útúr þessu sé rétt.  Það er ekki líklegt að þau hormón sem þungunarprófið mælir séu enn í það miklu magni eftir fóstureyðinguna að það mælist núna.  Sennilegra er að þau séu hækkuð aftur einmitt vegna nýrrar þungunar.  Þú kemst í sónar hjá kvensjúkdómalækni en þar sem þú ert tiltölulega nýbúin að fara í fóstureyðingu gætir þú kannski líka leitað á Móttökudeild kvennadeildar í skoðun, þú getur allavega hringt þangað og spurt.  Pillan veldur ekki fósturskemmdum þar sem um náttúruleg hormón er að ræða sem eru þegar í líkama þínum en bara stærri skammtar.

Gangi þér vel.

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
29. október 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.