Þungun stuttu eftir keiluskurð

24.01.2008

Sæl og takk fyrir frábært framtak hér á þessum vef:)

Málið er að ég var í keiluskurði fyrir 2 mán síðan, og er nú ófrísk komin 4 vikur og 3 daga.  Mér var ráðlagt að bíða í 3-6 mán með barneignir, en svona er staðan núna og hef ég grun um hvernig vörnin okkar klikkaði. Þetta verður mitt 2 barn og ég er svo hrædd um missi eða fyrirburafæðingu. Er með dálitla útferð glæra og lyktalausa hef áhyggjur af leghálsinum.  Hvert er best að snúa mér?  Með von um skjót svör.

Fyrirframþakkir

Áhyggjufull


 Komdu sæl og til hamingju með þungunina.

Þú skalt reyna að hafa ekki áhyggjur af þessu.  Þegar legið fer að stækka eitthvað að ráði og þrýstingur að koma niður á leghálsinn verða liðnir 4-5 mánuðir frá aðgerðinni og þá ætti nú leghálsinn að vera búinn að jafna sig vel.  Líkurnar á að allt gangi vel eru miklu meiri en að eitthvað fari úrskeiðis, mundu það.  Útferðin er eðlileg, hún eykst á meðgöngunni og er ekki merki um að neitt sé að leghálsinum heldur merki um eðlilega líkamsstarfsemi.

Það getur verið ágætt fyrir þig að fá tíma hjá lækninum þínum sem gerði aðgerðina því hann veit best hversu mikið af leghálsinum hann tók og getur ráðlagt þér útfrá því.

Gangi þér vel.

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
24. janúar 2008.