Blæðing á fyrstu vikunum og sveppasýking

31.10.2007

Góðan daginn og kærar þakkir fyrir frábæran vef með mjög svo góðum og gagnlegum upplýsingum!

Ég er ófrísk, komin 8-9 vikur.  Ég hef farið tvisvar í snemmsónar og allt leit vel út í sambandi við fóstrið sjálft, góður hjartsláttur og allt gott um það að segja.

Ég hef verið með einkenni sveppasýkingar í dálítinn tíma og ég hef verið að nota Vivag stíla og Canesten krem. Hef ekki farið út í að nota Canesten stílana, en það er líklega í lagi að gera það, eða hvað?  Einhversstaðar heyrði ég að það væri ekki gott að nota stílana svona snemma á meðgöngu..

Aðal áhyggjuefnið mitt er samt ekki þetta heldur það að þegar ég fór á klósettið í dag sá ég dálitla ljósbleika útferð í innlegginu mínu.  Það hefur ekkert blætt hjá mér hingað til, en eins og kemur fram hér að ofan, hef ég fengið aukna hvítleita útferð, kláða og sviða, einkenni sveppasýkingar.

Hvað segið þið um þetta fróðu konur? Á ég að láta athuga þetta eitthvað frekar eða vera róleg og bíða eftir næsta sónar?

Bestu kveðjur og þakkir!

 


 

Komdu sæl og takk fyrir hrósið.

Samkvæmt Sérlyfjaskránni á ekki að nota Canesten fyrstu 3 mánuði meðgöngu og ekki er gerður greinarmunur á stílum eða kremi þar þannig að þú ættir að fara í apótekið og fá eitthvað annað við sveppasýkingunni.  Útferð eykst á meðgöngu en ég er sammála þér að þetta hljómar eins og sveppasýking. 

Örlítil blæðing þarf ekki að þýða neitt vandamál.  Á meðgöngu breytist æðakerfið ansi mikið og blóðflæði til legsins og leghálsins eykst mikið.  Það myndast margar nýjar háræðar (pínulitlar æðar) á þessu svæði og vefurinn verður gljúpur og það getur blætt auðveldlega frá honum.  Sjáðu bara aðeins til.  Ef það hættir strax að blæða er þetta örugglega alveg eðlilegt. 

Ef það heldur áfram að blæða og þú hættir að hafa öll einkenni þungunar eins og ógleði, þreytu, brjóstaspennu o.fl. getur það bent til fósturláts og þá getur þú leitað til Móttökudeildar kvennadeildar (ef þú ert á Reykjavíkursvæðinu) og fengið að koma í skoðun þar.

Bestu kveðjur

 

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
31. október 2007.