Spurt og svarað

13. ágúst 2009

Þvagblaðra sést ekki

Sælar

Ég var að sjá niðurstöður úr 12 vikna sónarnum, þ.e. blaðið með samþætta líkindamatinu og þar kemur fram að blaðra hjá fóstrinu sjáist ekki en allt annað er eðlilegt og líkindamatið sjálft gott. Ég minnist þess ekki að ljósmóðirin sem skoðaði mig hafi minnst á þetta við mig.

Getur þetta ekki bent til þess að eitthvað sé að nýrnastarfsemi og að ekki sé allt eðlilegt? Mér finnst skrýtið að hún hafi ekkert talað um þetta við mig. Ég er komin 16 vikur núna og finnst ansi óþægilegt að uppgötva þetta allt í einu nokkrum vikum seinna.

Kær kveðja, Hrefna

 


 

Sæl Hrefna

Þó að ekkert sjáist í þvagblöru við 12 vikur getur verið að fóstrið sé ný búið að pissa, og þess vegna er ekki gerð nein athugasemd við það, ef legvatn er eðlilegt.  Við 20 vikna skoðun eru nýrun og þvagblaðran skoðuð vel, og ef hittist þannig á að blaðran er tóm þá, er beðið eftir að hún fyllist eða konan látin koma aftur. Það er ekki ástæða til að hafa áhyggjur af þessu, þetta er mjög algengt og þarf alls ekki að vera vísbending um nýrnagalla.

Kveðja og gangi þér vel

María Hreinsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
13. ágúst 2009.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.