Spurt og svarað

05. júní 2013

Þvagfærasýking

Þar sem ég hef fengið sýkingu í nýra vegna þvagfærasýkingar (áður en ég varð ólétt) langaði mig að forvitnast um hvernig best er að fyrirbyggja eða forðast slíkar sýkingar á meðgöngu. Ég var orðin ónæm fyrir pensilíninu (selexid) sem ég var á og var lögð inn á spítala og fékk pensilín í æð. Síðan þá hef ég ekki fengið blöðrubólgu en er mjög meðvituð og kvíðin fyrir þessu á meðgöngunni. Er komin rúmar 14 vikur á leið og líðanin hefur verið fín hingað til. Ég hef notast við aloe vera trönuberjasafa áður en ég varð ólétt sem virkaði vel. Í honum eru þó a-vítamín og mér skildist að maður ætti að reyna að forðast þau. Skammtastærð er þó ekki nema 2-3 cl á dag. Má ég nota þennan safa á meðgöngu? Er eitthvað annað sem ég get gert en að drekka mikið vatn og ætti maður að sleppa eða stunda minna kynlíf þar sem ég tengi þessar sýkingar oft við kynlíf?Sæl vertu, takk fyrir bréfið þitt og til hamingju með væntanlegan erfingja.
Væntanlega hefur þú nú skilað þvagi í rannsókn þar sem þú ert nú komin vel áleiðis í meðgöngunni þinni og vonandi verið allt í lagi. Það er gott að þú ert meðvituð um þann vanda sem þú hefur átt við að glíma og nauðsynlegt að vera áfram vakandi fyrir einkennum.
Ég vil benda þér á ágæta grein, að vísu nokkurra ára gamla, um þvagfærasýkingar en hún svarar að einhverju leyti fyrirspurn þinni varðandi kynlíf og þvagfærasýkingu og tengslin þar á milli. Á það hefur líka verið bent að gott er að drekka vel af vatni áður en stunda á kynlíf og reyna svo að pissa fljótlega eftir samfarir og skola með því út þær bakteríur sem ef til vill væru komnar upp í þvagrásina eftir samfarirnar.
Það er líka vel þekkt að á meðgöngu breytist sýrustig líkamans og ýmsar sýkingar eiga auðveldara með að ná sér á strik. Gott ráð til sporna við slíku er að nota fyrirbyggjandi aðferðir eins og þú reyndar lýsir, með því að nota trönuberjasafa. C-vítamín er líka gott í sama tilgangi, svo og að nota AB mjólk bæði til að borða og einnig til að bera á sig að neðan, en hún virkar sérstaklega vel gegn sveppasýkingum sem geta líka komið í kjölfar sýklalyfjanotkunar. Hafðu líka í huga að forðast sykur í mat og drykk á meðgöngunni til að minnka líkur á sýkingu. Á vefnum okkar eru líka tvö eldri svör sem ég fann um þetta efni.
Að lokum vil ég benda þér á að ljósmæðurnar í mæðraverndinni eru alltaf tilbúnar til að aðstoða þig og senda þvag frá þér í rannsókn ef þig grunar að þú sért komin með sýkingu og gott að taka þvag í ræktun af og til, ekki síst ef sýking hefur greinst hjá þér.
Bestu kveðjur og gangi þér vel
Björg Sigurðardóttir,
ljósmóðir,
5. júní 2013
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.