Spurt og svarað

11. september 2009

Þvagleki á seinni hluta meðgöngu

Sælar!

Takk fyrir frábæran vef sem ég hef oft nýtt mér þegar ég hef þurft að afla mér upplýsinga. Mig langar til að spyrja að einu sem ég fann ekki á vefnum. Upp úr seinni hluta meðgöngu minnar (er núna á 33. viku) byrjuðu hjá mér frekar leiðinlegar hliðarverkanir en það er að þegar ég pissa og tel mig hafa lokið því af, þá er eins og það leki alltaf aðeins þegar ég stend upp.

Það er eins og að blaðran tæmist ekki fyrr en ég stend upp eða ég hafi ekki alveg tilfinningu fyrir því að það sé ekki allt búið. Ég er með mjög þrútna barma og fleiri æðahnútar hafa bæst í hópinn frá fyrri 2 meðgöngum, en ég man ekki eftir því að hafa verið með svona leka fyrr.

Fíla mig pínu eins og gamla konu. Það sem mig langar að vita er hvort það séu ekki einhverjar líkur á að þetta gangi til baka og að þvaglát verði eðlileg þegar ég jafna mig eftir barnsburð?

Með bestu kv. og fyrirfram þökkum.
Sæl og blessuð !

Það sem þú ert að lýsa hljómar eins og áreinsluþvagleki. Það verða miklar breytingar á meðgöngunni og eftir því sem á meðgönguna líður eykst þrýstingur á þvagblöðruna frá leginu og kolli barnsins. Þvagleki á meðgöngu er frekar algengur kvilli sem oftast gengur til baka eftir fæðingu.

Helstu ráð mín til þín eru að gera grindarbotnsæfingar. Góðar grindarbotnsæfingar auka styrk vöðvanna og á sama tíma halda þeir betur við þvagrásina. Einnig getur þú prófað að halda við þvagrásar opið með klósettpappír þegar þú ert búin að pissa og reyna að slaka vel á og sjá hvort þú nærð að tæma blöðruna betur.

Eftir fæðingu er nauðsynlegt að halda áfram að gera grindarbotnsæfingar og eru þá mestar líkur á að þetta muni ganga til baka. Ef þú verður enn í vandræðum nokkrum vikum eftir fæðingu skaltu ræða það við ljósmóður eða hjúkrunarfræðing í heilsugæslunni þinni.

Nánari upplýsingar um þvagleka og grindarbotnsæfingar eru hér á síðunni undir Meðgöngukvillar og Þvagleki. Einnig er hér góður bæklingur um grindarbotnsæfingar.

Gangi þér vel !

Kær kveðja,

Harpa Ósk Valgeirsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
11. september 2009.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.