Spurt og svarað

16. nóvember 2008

Þykkt (lengd) á leghálsi við 14 vikur

Ég hef farið í keiluskurð og það var tekið frekar mikið. Þetta var fyrir svona u.þ.b. 4 árum. Svo þegar ég fór í 12 vikna skoðun þá var búið að koma blóð 4 sinnum, reyndar bara nokkrir dropar en ég var nú samt orðin frekar taugaveikluð. Í 12 vikna skoðun þá sér konan sem skoðaði mig að fylgjan liggur neðarlega og það er einhver smá blæðing undir henni. En hún vildi fá mig aftur eftir 2-4 vikur svo að læknir gæti mælt leghálsinn. Þar sem ég var frekar stressuð þá bið ég hana bara um að fá að koma eftir 2 vikur. Ég fæ tíma og allt í góðu en svo þegar ég kem í dag komin 14 vikur þá segir læknirinn að það þýði ekkert að mæla þetta fyrr en í fyrsta lagi svona um 16 vikur og vill að ég komi aftur. En hún segist svo sem geta kíkt á þetta af því að ég fer að tala um blæðinguna. Hún sér að það er engin blæðing og fylgjan er enn neðarlega en samt komin aðeins ofar. En svo segir hún að leghálsinn sé 3 cm og ég spyr hana hvað segir það, er það venjulegt svona við 14 vikur? En hún segir bara að það megi ekki fara niður fyrir 2.5 cm. Ég var nú ekki alveg að fara að kryfja það upp úr konunni hvað þetta þýddi. Sú sem ég fór fyrst til sagði að ég ætti ekkert að vera að reyna of mikið á mig og passa að hvílast nóg. En þessi í dag vildi meina að hreyfing og allt þannig væri í lagi. En það sem mig langar samt mikið að vita er það hvort 3 cm séu í lagi við 14 vikna meðgöngu og mér finnst 2.5 og 3 cm ekkert vera mjög mikill munur en þegar maður er að tala um leghálsa. Er það mikill munur? Hef nefnilega heyrt að þegar líður á þá styttist leghálsinn og mýkist.


Sæl!

Eðlileg lengd legháls við 14 vikur hjá konu sem hefur farið í keiluskurð um 3 cm. Ástæða þess að leghálsmæling er ekki gerð fyrr en við 16 vikur er sú að ef hann mælist stuttur þá er mögulegt að setja saum í leghálsinn til að styrkja hann. Það er eðlilegt á síðasta mánuði meðgöngu styttist og mýkist leghálsinn, ákveðinn undirbúningur fyrir fæðinguna. Varðandi það taka því rólega, þá var það ráðlagt meðan blæðing var í leginu.

Kveðja og gangi þér vel,

María Jóna Hreinsdóttir,
ljósmóðir - deildarstjóri fósturgreinardeildar LSH,
16. nóvember 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.