Spurt og svarað

09. október 2013

Þyngdaraukning á meðgöngu

Í sambandi við grein ykkar „Þyngdaraukning á meðgöngu“ er ég með eftirfarandi spurningu. Ég er með BMI 33 og samkvæmt því ætti ég ekki að þyngjast meira en 7kg (3-7kg sagði ljósmóðirin mér). Ef gróflega er reiknuð saman meðalþyngdaraukning eins og gefin er upp í greininni fást 13.9 kg. Ég hef lést um 4 kg á fyrstu 12 vikunum (og er núna með BMI 33) og ljósmóðirin sagði að þessi nýja þyngd ætti að vera upphafspunkturinn minn. Ég mætti því þyngjast um 3kg í viðbót á næstu 6 mánuðum. Einnig var mér sagt að ég ætti ekki að léttast á meðgöngunni en ég fæ þetta ekki til að ganga upp ef meðalþyngdaraukningin er 13.9 kg. Ég borða alla jafna hollan mat en magnið veit ég að hefur verið of mikið. Leiðbeiningarnar sem ég fæ finnst mér stangast á og kalla ótvírætt á töluverða megrun eða um 10kg á næstu 6 mánuðum. Er um einhverja aðra túlkun að ræða?Sæl vertu og til hamingju með þungunina.
Þegar stórt er spurt, já þá þarf að leita svara. Þegar kona í meðgöngu er með BMI eins og þú lýsir er rétt að ekki er æskilegt að þyngjast mjög mikið, og jafnvel ekki neitt, eins og þér var réttilega bent á. Þá er átt við að þegar ráðleggingum um mataræði og hreyfingu á meðgöngu er fylgt vel eru miklar líkur á að viðkomandi, sem við gerum ráð fyrir hér að sé í ofþyngd, þyngist ekki, eða léttist jafnvel eitthvað. Slík breyting á þyngd er jákvæð og auðveldar meðgönguna. Við erum þar með ekki að gera ráð fyrir að markvisst sé verið að leita eftir því að léttast, hollur matur í hófi og dagleg hreyfing getur hins vegar haft þau áhrif að kílóum fækki. Er það ekki á kostnað meðgöngunnar, eða þroska barnsins á nokkurn hátt, ef skynsamlega er farið að. Í raun er líkaminn að nýta þær birgðir sem hann á fyrir. Ef lítil sem engin þyngdaraukning verður á meðgöngu hjá konu með hátt BMI, verða afleiðingarnar þær að hún getur orðið léttari eftir fæðingu en hún var fyrir meðgöngu. Slíkt er á engan hátt óeðlilegt.
Það eru margskonar vandamál sem geta fylgt því að vera of þung í meðgöngu. Er okkur ljósmæðrum þá gjarnan ofarlega í huga hættan á meðgöngusykursýki. Það hefur sýnt sig að oft á tíðum er hægt að halda henni í skefjum, eða koma í veg fyrir hana, með því að breyta mataræði og auka daglega hreyfingu. Til er góður bæklingur Matur og meðganga sem nýtist vel og einnig er hér annar sem fjallar um meðgöngusykursýki og mataræði. Í báðum þessum bæklingum horft á að borða hollan og góðan mat sem við ættum öll að tileinka okkur, hvort sem er á meðgöngu eða ekki, bæði hvað varðar skammtastærðir og samsetningu matarins. Einnig eru hér ágætar upplýsingar um hreyfingu á meðgöngu.
Vona ég að þetta svari að einhverju leyti spurningunum þínum og gangi þér vel á meðgöngunni þinni.


Bestu kveðjur,
Björg Sigurðardóttir,
ljósmóðir,
9. október 2013


Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.