Þyngdaraukning á tvíburameðgöngu

28.06.2009

Sælar og takk fyrir frábæra síðu.

Ég er ólétt af tvíburum og er búin að lesa mig aðeins til um tvíburameðgöngur. Nú er ég á 14 viku og varla farið að sjá á mér (öfugt við það sem ég hef lesið). Ég er í svipaðri þyngd og fyrir meðgöngu, en mér líður eins og ég sé rosalega þung á mér og þreytt þó að annað fólk sjái engan mun á mér. Svo hef ég heyrt að maginn verði harður þegar hann byrjar að stækka, en mér finnst hann maginn frekar mýkri ef eitthvað er, er það rétt að ég ætti að finna hann harðna fyrst? Hversu mikið er eðlilegt að þyngjast á tvíburameðgöngu? Ég er há og grönn og u.þ.b 60 kg. Mér finnst óþægilegt að finna ekki neitt gerast þó að allt hafi komið mjög vel út í sónar og mæðraskoðun.

Með fyrirfram þökk.

Kveðja, tvíburamamma.


Sæl og blessuð!

Mér finnst nú líklegt að það sé aðeins farið að sjá á þér þar sem það er liðinn svolítill tími frá því að þú sendir okkur fyrirspurnina. Annars er þetta er afskaplega mismunandi milli kvenna og milli meðgangna og getur allt verið eðlilegt. Þegar legið fer að ná upp fyrir lífbeinið (sem það ætti að gera núna) þá er það vissulega harðara en kviðfitan sem er fyrir framan það þannig að kannski var átt við það þegar þér var sagt að maginn myndi harðna. Ef þú ert í kjörþyngd þá er eðlileg þyngdaraukning á tvíburameðgöngu um 16-20,5 kg. Þú ættir að vera búin að þyngjast um a.m.k. 1,5-2 kg. núna en hafðu ekki áhyggjur þó þú hafir enn ekki þyngst, sérstaklega ef þú hefur verið með ógleði og lystarleysi síðustu vikurnar.

Gangi þér vel.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
28. júní 2009.