Þyngdatap á meðgöngu

21.01.2013
Ég hef mikið verið að velta því fyrir mér hvort að skoðanir á þyngdartapi á meðgöngu hafi eitthvað breyst á Íslandi. Ég á vinkonu í Noregi sem var allt of feit þegar hún var ólétt seinast og henni var sagt að það væri í fínu lagi þó hún myndi léttast og var bent á rannsóknir sem studdu það og bentu til þess að fyrir konur með offitu væri það jafnvel betra. Nú er ég 92 kg og 168 cm á hæð. Ég var að komast að því að ég er ólétt og ég myndi gjarnan vilja létta mig til að auðvelda mér meðgönguna. Ég fékk svakalegt grindarlos á síðustu meðgöngu og grindin gekk ekki alveg saman eftir fæðinguna heldur. Ég hef verið mjög slæm alla tíð síðanKomdu sæl.
Í mæðravernd á Íslandi telst hæfileg þyngdaraukning hjá konum með yfir 30 í BMI 5-9 kg. Margir telja margir að þyngdaraukning sé ónauðsynleg hjá þessum hópi kvenna. Þyngdaraukning á meðgöngu er ca. 12,5 kg og er inn í þeirri tölu barnið, fylgjan, legvatn, brjóstin, fita, blóð, vökvi og leg. Samkvæmt þessum tölum ættu konur með yfir 30 í BMI í rauninni ekki að bæta neinni þyngd á sjálfa sig. Meðganga er þó aldrei tíminn til þess að fara í megrun heldur skiptir mestu máli að passa vel upp á mataræði og borða holla og fjölbreytta fæðu og stunda þá hreyfingu sem konur treysta sér til. Rannsóknir benda til þess að þyngdartap á meðgöngu hjá konum í ofþyngd geti minnkað líkur á fylgikvillum ofþyngdar á meðgöngu en geti leitt til minni fæðingarþyngdar barns. Aftur á móti virðist lítið þyngdartap, þá undir 5 kg hjá konum með BMI yfir 35 hafa fleiri kosti en galla og ekki hafa áhrif á fæðingarþyngd barnsins. Ljósmóðirin þín í mæðraverndinni getur gefið þér ráð og einnig er hægt að fá ráðgjöf hjá næringarfræðingi á Landspítalanum
Í sambandi við grindarlosið er mikilvægt að passa vel upp á allar hreyfingar og jafnvel gæti verið þörf á að fara til sjúkraþjálfara, einnig er gott er að vera vel vakandi yfir versnandi einkennum og fá aðstoð áður en þú verður mjög slæm.
Gangi þér sem allra best á meðgöngunni.


Kveðja,
Súsanna Kristín Knútsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
21. janúar 2013