Spurt og svarað

06. júní 2012

?Stjernekigger? - framhöfuðstaða

Sælar!

Þegar ég átti mitt fyrsta barn gekk það hræðilega illa vegna þess að það var „stjernekigger“. Mig langar svo að vita meira um þetta, þessa skorðun en ég veit ekki hvað þetta kallast á ensku og ég á erfitt með að skilja dönsku síðurnar sem ég finn þegar ég leita upplýsinga. Mér var sagt að það væru um 25% líkur á að næsta barn væri líka skorðað svona. En hvernig er það, er hægt að sjá það áður en fæðing byrjar og væri mögulega hægt að biðja um keisara ef barnið er „stjernekigger“?. Ég get ekki hugsað mér að ganga aftur í gegn um svona hræðilega fæðingu eins og síðast.
Sæl!

„Stjernekigger“ er á íslensku kallað framhöfuðstaða. Framhöfuðstaða er þegar andlit barns snýr upp eða í átt að lífbeini móður en ekki niður eins og flest börn gera.

Við lok meðgöngu eru 15-20% barna eru í þessari stöðu, flest snúa sér en 5-10% snúa sér ekki og fæðast í framhöfuðstöðu. Yfirleitt er fæðingin lengri þegar barn er í framhöfuðstöðu því höfuð barnsins þrýstir ekki nægjanlega vel á leghálsinn í fæðingu.

 

Erfitt er að meta áður en fæðing byrjar hvernig höfuð barns muni snúa í fæðingu en allt að 25% barna eru í framhöfuðstöðu við lok meðgöngu. Þegar fæðing er byrjuð er mögulegt að meta stöðu barns betur. Ljósmæður geta metið stöðu barns með ytri skoðun á kvið og með innri skoðun þegar leghálsinn er byrjaður að opnast.

Auknar líkur eru á að næsta barn verði í sömu stöðu ef kona hefur áður fætt barn í framhöfuðstöðu, í rannsókn frá 2004 kemur fram að líkurnar eru 7,8% samanborið við 1,7% hjá konum sem hafa fætt barn í eðlilegri stöðu (Gardberg, Stenwall og Laakkonen, 2004).

Keisaraskurður er ekki endilega besta lausnin enda er það stór aðgerð sem getur haft aukaverkanir. Ég ráðlegg þér að ræða við þína ljósmóðir í mæðravernd og fáir ef til vill viðtal í Ljáðu mér eyra á Landspítalanum til að fara yfir síðustu fæðingu og gera áætlun fyrir næstu.

 

Gangi þér vel

Kær kveðja,
Signý Dóra Harðardóttir
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
6. júní 2012

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.