Spurt og svarað

22. desember 2004

Af hverju rifnum við?

Takk fyrir frábærann og góðan vef.

Af hverju rifnum við eða erum klipptar? Er þetta hormónatengt eins og slitin eða fer þetta allt saman eftir hraða fæðingarinnar. Nú á ég tvær fæðingar að baki, fór alveg rosalega illa út úr fyrri. (tekin með sogskál) en svo gekk hin svona glimrandi vel, kannski heldur fljótt svo ég var klippt smá. Er hægt að gera eitthvað til að koma í veg fyrir að maður rifni mikið?

Kveðja, 3. bumba.

....................................................................

Sæl og takk fyrir að senda okkur fyrirspurn.

Að þessu sinnu leituðum við ráða hjá Margréti I. Hallgrímsson, yfirljósmóður á kvennasviði Landspítala, háskólasjúkrahúss því hún gerði mastersverkefni um útkomu spangar í fæðingu og er þvi vel að sér á þessu sviði. Hér kemur svarið hennar:

Það er ljóst að 2/3 allra frumbyrja rifna eitthvað við fæðingu en rannsóknir sýna það að 1/3 kvenna er með heila spöng við fæðingu fyrsta barns. Hlutfall kvenna sem hefur heila spöng er næstum helmingi hærra hjá konum sem eru að fæða annað, þriðja , fjórða o.s.frv. barn. Hvers vegna rifna sumar konur en aðrar ekki? Vissulega eru það nokkrir þættir sem geta haft áhrif en því miður verður seint eða aldrei alveg hægt að segja til um ástæðuna ( þ.e. sanna orsök). Ástæður geta verið stórt barn og/eða mjög hröð fæðing, ættarsaga, en svo hafa þættir eins og vefjagerð konunnar og mænurótardeyfing einnig verið nefndir. Við vitum að einstaka einstaklingur grær illa og fær ljót ör sama hversu lítill skurðurinn er á húð. Sumar konur slitna t.d. mjög á kvið á meðgöngu an aðrar ekki, þetta er dæmi um mismunandi húð og vefjagerð. Mænurótardeyfing gæti haft eitthvað að segja þar sem konan hefur minni tilfinningu fyrir grindarbotninum og þess vegna rembist hún ekki í takt við þan spangar. Við vitum líka að það að hvetja konu of stíft til að rembast í lok fæðingar er ekki æskilegt m.t.t. spangarinnar. Hins vegar þegar litið er til stórra barna þá eru sumar konur að fæða mjög stór börn með heila spöng á meðan aðrar konur eru að fæða fremur nett börn og rifna illa! Spyrja má hvort að ættarsaga, hröð fæðing, konan er hvött of mikið til að rembast eða of deyfð kona hafi þar eitthvað að segja. Ég hef líka oft spurt mig hvort verið geti að vefjagerð, kollagen- uppbygging kvenna í dag sé öðruvísi en áður þar sem mataræði og hreyfing er allt öðruvísi? Kannski hefur minni hreyfing einnig áhrif á grindarbotninn.

Margir spyrja sig hvort það hafi afgerandi áhrif á útkomu spangar að ljósmóðir haldi vel við spöngina og stýri hraða fæðingar kolls. Ein mjög stór rannsókn með yfir 5000 konum í úrtaki og gerð í þremur löndum sýndi að það hafði ekkert að segja. Mitt klíníska nef segir þó annað og er ég persónulega á þeirri skoðun að æskilegt sé í samvinnu við konu að stýra hraða fæðingar kolls og halda við spöngina, jafnvel með því að styðja létt við endaþarm í leiðinni. Passa að konan noti ekki allan kraft sinn í kollhríðinni heldur fæði kollinn með léttum þrýstingi.
En það er með þetta eins og svo margt sem lærist á lífsleiðinni sennilega fær ljósmóðir þetta á tilfinninguna og best er að vinna náið með konunni á þessu síðasta tímabili fæðingarinnar.

Hvað varðar klippingar þá á ekki að klippa rútínubundið. Það á alltaf að vera góð ástæða fyrir klippingu spangar s.s. sýnd þreyta hjá barni eða móður. Það má líka passa sig á því að ákveða að klippa aldrei! Því klipping á réttum tíma við réttar aðstæður er góður praksis.
Við vitum það fyrir satt og mér finnst það einnig rökrétt að tangarfæðingar stuðla að verri útkomu spangar og stundum sogklukkufæðingar þó nýju sogklukkurnar séu vissulega miklu spangarvænni. Það hefur ekki sýnt hafa áhrif á spöngina að nudda hana í fæðingu en fáar rannsóknir hafa sýnt að nudd á spöng frá 34 viku meðgöngu hjá frumbyrjum hafði áhrif í átt að betri útkomu spangar.

Með von um að þessar hugleiðingar svari einhverju.

Yfirfarið 27. janúar 2016

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.