Aftur keisari?

20.04.2004

Er algilt að barn númer tvö verði líka keisari ef að fyrsta barn var það? Einhverstaðar heyrði ég að einu sinni keisari, alltaf keisari...er það rétt?? Ef ekki, er hægt að biðja um heimafæðingu eftir að hafa átt fyrsta barn með keisara?

Kveðja Mánamjöll og takk fyrir snilldar vef!!

....................................................

Takk fyrir fyrirspurnina og hólið Mánamjöll!

Nei það er ekki algilt að barn númer tvö verði líka keisari eftir fyrri keisara. Nánast alltaf er fæðing reynd eftir eina fæðingu með keisaraskurði og fæða margar konur eðlilega í næsta skipti. Hafi kona hins vegar tvo (eða fleiri) keisaraskurði að baki þá er skorið eftir það. Kona sem hefur fætt með keisaraskurði er undir meira eftirliti en kona sem ekki hefur farið í keisara og er því ekki mælt með heimafæðingu.

Gangi þér vel,

Yfirfarið 19.6. 2015