Afturstæður legháls og losað um belgi

26.09.2005
Ég bý í Danmörku og er sett skv. sónar í dag. Ég átti barn fyrir 20 mánuðum síðan og gekk þá með 2 vikur framyfir og var sett af stað. Það gekk mjög illa að sprengja belginn hjá mér, því ég var með svo afturstæðan legháls. Ef ég var með afturstæðan legháls í þeirri fæðingu - er ég þá ekki alltaf með hann þannig? Er ég þá líka með afturstætt leg?
Ég á að fara í skoðun í dag hér í Danmörku og mig langar að biðja um að losað verði um belginn hjá mér, því ég treysti mér varla tvær vikur framyfir aftur og langar því að ýtt verði við þessu og athugað hvort einhver útvíkkun sé byrjuð því ég hef verið með vaxandi verki undanfarna daga. Hvernig yrði brugðist við þessari bón á Íslandi? Ég veit ekki hvaða svör ég fæ hér...
Takk fyrir frábæran og fróðlegan vef sem hefur bjargað mér nokkrum sinnum hér útlöndunum.
..................................................
 
Komdu sæl og takk fyrir fyrirspurnina.
 
Allar konur eru með afturstæðan legháls í byrjun fæðingar.  Á útvíkkunartímabilinu færist hann fram, styttist, mýkist og opnast.  Belgirnir hafa verið sprengdir hjá þér í byrjun fæðingar og þess vegna hefur það gengið illa. 
Hér á Íslandi yrði sennilega tekið vel í þá bón að losa um belgi hjá þér þar sem þú ert fullmeðgengin.  Það er þó engin trygging fyrir því að fæðing fari af stað.
 
Gangi þér vel.
 
Rannveig B. Ragnarsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og  ljósmóðir.
26.09.2005.