Aftursveigt leg

19.09.2005

Mig langar að fá að vita hvort aftursveigt leg hafi einhver áhrif í fæðingu? Hvað þýðir það að vera með aftursveigt leg?  Er erfiðari fæðingin?
Bestu þakkir

----------------------------------------------------------

Komdu sæl og þakka þér fyrir fyrirspurnina.
Flestar konur hafa framlægt leg þ.e. legið hallar fram á við og hvílir ofan á þvagblöðrunni.  Hjá einni af hverri fimm konum er legið aftursveigt og hallar legið þá að endaþarminum.   Sjaldgæft er að aftursveigt leg valdi konum einhverjum óþægindum en þær velja oft aðrar stellingar í kynlífi vegna stöðu legsins. 
Aftursveigt leg á ekki að valda neinum vandræðum á meðgöngu og í fæðingu.  Þegar að legið stækkar þá fer það að hallast fram á við og hallar þá alveg eins og framlægt leg.  Það er hugsanlegt að konur með aftursveigt leg finni meira fyrir togi á legböndunum á meðgöngu en venjulega dregur úr því togi þegar fyrsta þriðjungi meðgöngunnar er lokið.
Gangi þér vel
Kveðja

Málfríður Stefanía Þórðardóttir
Ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
19.09.2005