Ágústmamma sem endaði í keisara

20.11.2005

Sælar og kærar þakkir fyrir frábæran vef.

Ég eignaðist stelpu í ágúst á þessu ári og fæddist hún erlendis. Það eru nokkur atriði sem ég hef verið að velta fyrir mér varðandi fæðinguna. Best er ef til vill að lýsa henni fyrst. Ég var sett af stað eftir 42 vikna meðgöngu og var legbotninn þá orðinn 44 cm og hafði alltaf verið töluvert yfir vikufjöldanum en ljósmóðirin sá samt ekki ástæðu til að senda mig í vaxtarsónar. Ég þurfti að fá 3 stíla til að koma mér af stað og þegar ég missti vatnið var það grænt. Einnig þurfti að setja upp dripp. Þegar ég var komin með fulla útvíkkun var barnið komið í svo mikið „stress“ að læknar og ljósmæður töldu best að ná henni strax út. Endaði ég í keisara því barnið var víst of hátt uppi til að hægt væri að ná í það með töngum eða klukku. Barnið reyndist 18 merkur og 57 cm! Spurningar mínar eru því hvort miklar líkur séu á því að næsta barn verði eins stórt, hvort grindin hafi verið of lítil fyrir barnið fyrst ekki var hægt að ná til þess með hjálpartækjum og hvort líklegt sé að það þyrfti að setja mig af stað aftur næst fyrst ég var svona óhagstæð.

Með fyrirfram þökkum, ágústmamman.

................................................................................


Sæl og blessuð og þakka þér fyrir að leita til okkar!

Ég get vel ímyndað mér að fæðing dóttur þinnar hafi verið þér nokkuð erfið reynsla, og það er eðlilegt að þú sitjir uppi með ýmsar spurningar sem brenna á þér.

Mig langar að byrja á því að segja þér að hver meðganga og hver fæðing er einstök og það er ekki þar með sagt að þó stelpan hafi verið svona stór síðast og fæðingin gengið svona treglega, að sagan endurtaki sig næst. Síður en svo.

Það eru fleiri þættir en stærð barnsins og grindarinnar sem ákvarða hvort fæðing um fæðingaveg gangi, til dæmis skiptir máli að höfuð barnsins snúi á hagstæðan hátt og hríðarnar þurfa einnig að vera nægilega sterkar. Ef barnið er stórt þá skiptir enn meira máli að þessir þættir séu hagstæðir. Það getur vel verið að þú hefðir geta fætt barnið eðlilega ef þú hefðir fengið lengri tíma en fyrst barnið var komið svo mikið „stress“þá fékkstu ekki tækifæri til þess.

Vegna sögu þinnar verður þó væntanlega fylgst nánar með þér á næstu meðgöngu með tilliti til stærðar barnsins. Þetta verður þó allt að metast þegar þar að kemur, og vonandi gengur þetta allt miklu betur næst. Vertu nú bara jákvæð og gerðu ráð fyrir því að þetta gangi allt saman vel næst.

Bestu kveðjur og gangi þér ofsalega vel!

Halla Björg Lárusdóttir,
hjúkrunarfræðigur og ljósmóðir,
20. nóvember 2005.