Áhættufæðing í heimahúsi

08.03.2007

Ég á eina yndislega heimafæðingu að baki og eftir þá upplifun get ég ekki hugsað mér að fæða annars staðar en heima hjá mér. Þó að fleiri börn séu ekki á dagskránni hjá mér hef ég verið að velta því fyrir mér hvernig því er háttað hér á landi ef kona er í áhættuhópi fyrir fæðingu, gengur t.d. með fjölbura eða sitjandi barn. Er sjúkrahúsum skylt að útvega fæðandi konu ljósmóður ef hún velur að fæða barn (eða börn) sitt heima? Ef kona ákveður að fæða heima þrátt fyrir áhættuþætti, býðst henni einhver aðstoð?

Bestu kveðjur, Anna Jóna.


Sæl og blessuð!

Hér á Íslandi er það þannig að ef þú ákveður að fæða heima þá hefur þú samband við þær ljósmæður sem gefa kost á sér í heimafæðingar og semur beint við ljósmóður. Ljósmæður sem taka að sér heimafæðingar gera það á eigin ábyrgð og fá greitt sem
verktakar frá Tryggingastofnun ríkisins. Eins er með heimaþjónustu eftir fæðingu. Ljósmæður vinna heimaþjónustur á eigin vegum, en sjúkrahúsin sjá um að útvega ljósmóður fyrir útskrift, ef konan hefur ekki verið búin að skipuleggja það sjálf fyrir. 

Til þess að heimafæðing sé valkostur þarf kona að vera heilsuhraust og meðgangan eðlileg, þ.e. engar áhættur til staðar. Fjölburafæðing og barn í sitjandi stöðu teljast áhættufæðingar og ættu því að eiga sér stað á sjúkrahúsi.

Ef fæðingin gengur vel þá er hægt að fara heim strax eftir fæðingu  og fá heimaþjónustu. Eins er alltaf sá möguleiki til staðar að konur sem byrja að fæða heima þurfi að flytjast á sjúkrahús og klára fæðingu þar. Það er alltaf háð mati ljósmóðurinnar í hvert sinn og við höfum haft þá stefnu að taka ekki neinar áhættur í heimafæðingum.

Kveðja,

Unnur Berglind Friðriksdóttir,
ljósmóðir,
8. mars 2007.