Spurt og svarað

20. nóvember 2006

Blæðing eftir samfarir

Góðan dag,

Takk fyrir frábæran vef.  Ég er komin 35 vikur og í morgun fór ég á salernið eftir að ég og maki minn höfðum haft samfarir rétt áður.  Það höfðum við ekki gert í ca.2 mánuði.  Í ljós kom fullt af blóði og varð ég mjög hrædd.  Það blæddi eins og á "góðum túrdegi".  Þetta snarminnkaði strax eftir nokkrar mínútur en maka mínum var svo um að hann hringdi strax uppá deild og sú sem svaraði var sallaróleg.  Sagði að við gætum komið í skoðun ef við vildum en þetta ætti ekki að vera neitt þ.e. ef það blæddi ekki meira en sem nemur 2 matskeiðum.  Mér fannst mjög erfitt að áætla hvað þetta væri mikið enda allt í klósettinu.  Ég fór aftur að sofa eftir að hafa sannfært mig að þetta væri að hætta og hreyfingar barnsins væru enn mjög aktívar.  Þegar ég vakna svo rétt fyrir hádegi blæðir ennþá en ekki eins mikið eins og í morgun.
Nú spyr ég.  Er þetta í lagi?  Barnið virðist enn vera í fullu fjöri. Afhverju gerist svona lagað?  Og hvað á ég að gera ef þetta stoppar ekki?
Kærar þakkir,
ein pínu áhyggjufull

 Komdu sæl.
 
Þetta er alveg eðlilegt.  Á meðgöngu eykst blóðstreymi til legsins og þar með leghálsins.  Hann verður gljúpur og það blæðir auðveldlega frá honum við snertingu eins og þegar limur mannsins kemur við hann við samfarir.  Þetta getur verið nokkur blæðing en mundu líka að blóð sem hefur blandast vatni (eins og í klósettinu) sýnist miklu meira en það er í raun og veru.  Blæðingin ætti að hætta strax eða að minnsta kosti fljótlega (nokkrir dropar í bindi fram eftir degi er samt ekkert til að hafa áhyggjur af).  Ef hinsvegar heldur áfram að blæða að einhverju marki og hættir ekki ættir þú að fara í aukaskoðun til ljósmóðurinnar þinnar eða hafa samband upp á kvennadeild.  Góðar hreyfingar eru til marks um að barninu líði vel.
Ég geri ráð fyrir að fylgjan þín sé á góðum stað, þ.e.a.s. ekki lágsæt eða fyrirsæt en í þeim tilvikum væri örugglega búið að segja þér frá því og vara þig við að hafa samfarir.
 
Bestu kveðjur
 
yfirfarið 29.10.2015

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.