Áhættumeðganga og fæðing í Hreiðri

02.04.2007

Komið þið sælar og takk fyrir frábæran vef!

Þannig er mál með vexti að ég eignaðist andvana barn í fyrra og er orðin ólétt aftur, sem er mikið gleðiefni, en það telst vera áhættumeðganga. Ég var að lesa á netinu að þær sem eru í áhættumeðgöngu mega ekki eiga í hreiðrinu. Ég hafði hugsað mér að eiga þar ef það væri laust en mér er líka alveg sama ef ég fæði á fæðingarganginum og fái svo að liggja í hreiðrinu með manninum mínum og krílinu. Mér leikur forvitni á að vita hvort þetta sé rétt sem ég var að lesa?

Kveðja, englamamma.


Sæl og blessuð!

Þetta eru sannarlega gleðifréttir, innilega til hamingju. Ég býst við því að það verði bara að koma í ljós þegar að fæðingu kemur hvort það er heppilegt fyrir þig að fæða í Hreiðrinu. Þú  ættir bara að ræða þetta við ljósmóðurina þína þegar nær dregur fæðingu.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
2. apríl 2007.