Áhættumeðganga- og fæðing eftir keisara?

24.01.2007

Vildi athuga hvort þið gætuð frætt mig á því hvort það væri ófrávíkjanleg regla á fæðingardeild Landspítalans að ef fyrsta barn er tekið með keisara á þá sé maður sjálfkrafa merktur með áhættumeðgöngu- og fæðingu næst. Fyrsta barn mitt var tekið með bráðakeisara á LSH eftir gangsetningu sem gekk ekki. Ég var vægast sagt mjög ósátt við allt það ferli. Læknirinn m.a.
ruglaðist á mér og annarri konu og framkvæmdi eftir því og ljósmóðirin sat með fæturna upp á rúminu hjá mér og talaði um krankleika sína meðan ég var í hríðum ;)  En mér  fannst þetta sem sagt allt saman mjög erfið upplifun, og get ekki hugsað mér að ganga í gegnum þetta aftur svona og hefði sjálf á sínum tíma viljað gefa barninu aðeins lengri tíma til að koma sjálft, og finnst þessi sjúkdómavæðing á meðgöngu og fæðingarferlinu mjög neikvæð.

En sem sagt þetta var nú spurningin, þ.e.a.s varðandi þessa flokkun þar sem ég á nú von á barni númer tvö.

p.s. Fór í ljáðu mér eyra og það var mjög fínt, vildi bara að vel þenkjandi ljósmæður sæju um fæðingar á fæðingarheimilum hér á landi þegar hægt væri, en ekki læknar á sjúkrahúsum!


Komdu sæl og takk fyrir að leita til okkar,

Svarið við fyrirspurn þinni er já, það er ófrávíkjanleg regla að kona, sem hefur einu sinni fætt með keisaraskurði fellur í áhættuhóp á síðari meðgöngum og fæðingum. Ástæðan er örvefurinn, sem myndast í leginu eftir að það hefur gróið. Það er alltaf ákveðin hætta á að örvefurinn gefi sig í fæðingunni og því þarf að vera nákvæmt eftirlit með konu og barni í fæðingunni, t.d. þarf hún að vera fastandi með vökva í æð og vera í sírita fósturhjartsláttar á virku stigi fæðingarinnar.

Það er leiðinlegt að heyra að þú skulir hafa upplifað þessa erfiðu reynslu við fyrstu fæðinguna þína en jákvætt að þú skulir hafa leitað til fagfólks eftir hjálp við að vinna úr þeirri reynslu. Það hefur hjálpað mörgum að fara í Ljáðu mér eyra og vona ég, að næsta fæðing þín verði þér léttbærari og vonandi bara frábær upplifun! Það kemur oft fyrir, því sjaldnast reynast tvær fæðingar hjá sömu konu eins að öllu leyti.

Gangi þér vel á meðgöngu og í fæðingunni.

Bestu kveðjur,

Kolbrún Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
24. janúar 2007.