Spurt og svarað

05. mars 2008

Áhrif mænurótardeyfingar

Komið þið allar sælar og takk fyrir fróðlegan vef.

Mig langar að forvitnast um mænudeyfingu. Á von á mínu öðru barni og er mikið að velta mænurótardeyfingu fyrir mér. Hvaða áhrif hefur hún á líkamann, þ.e. þegar útvíkkun er lokið og deyfingu hætt, er líkaminn þá hálflamaður og hreyfigeta takmörkuð eða get ég komið mér í þær stellingar sem mér finnast ákjósanlegar?  Eins er ég að pæla í útvíkkunarferlinu. Síðast gekk það frekar hratt fyrir sig, smá seiðingur á kortersfresti allt kvöldið, en svo 2 um nóttina byrjaði ballið og tveimur tímum síðar, þegar ég kom upp á deild var ég komin 8 í útvíkkun. Þarna hefði nú sennilega ekki gengið að biðja um mænudeyfingu, enda hafði ég ekki rænu á því. Mig langar að skipuleggja mig fyrir næstu fæðingu. Ég er hrædd við sársaukann og vildi gjarnan ná snemma á spítalann og eiga þennan möguleika. Hvenær er talið ráðlegast að þiggja mænudeyfingu í útvíkkunarferlinu?


Sæl og blessuð!

Þú getur skoðað nýlegt svar hér á vefnum um hversu snemma í fæðingu má gefa mænurótardeyfingu. Einnig getur þú skoðað pistil um verkjastillingu með lyfjum og ef til vill fleiri svör hér á vefnum. Það skiptir auðvitað máli að fæðingin sé örugglega komin af stað og svo er auðvitað ekki gott að gefa hana of seint því þá gagnast hún ekki. Deyfingin er góð verkjastilling að því leyti að hún „tekur burtu verkinn“ en þú finnur samt fyrir þrýsting þegar barnið er að þrýstast niður. Konur eiga að geta hreyft sig þrátt fyrir deyfinguna þó að styrkur í fótum sé eitthvað minni en venjulega. Það er mjög mismunandi hvaða áhrif deyfingin hefur á rembingsþörfina. Þú átt að geta komið þér í þær stellingar sem þér finnast ákjósanlegar en þú skalt þó hafa í huga að ef þú ert deyfð er ekki víst að þú finnir hvaða stelling hentar best til að koma barninu frá sér. Konur sem eru ódeyfðar hafa betri tilfinningu fyrir því hvaða stelling hjálpar þeim best.

Mér sýnist að fyrri fæðing hafi gengið vel hjá þér og því eru líkur á að þessi fæðing gangi vel og jafnvel enn betur en áður. Þú ættir að hugleiða hvort þú virkilega vilt grípa inn í náttúrulegt ferli með því að fá deyfingu því hún er inngrip í líkamann og mögulegar aukaverkanir eru nokkrar.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
5. mars 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.