Að sitja á hækjum sér í fæðingu

14.12.2006

Takk fyrir frábæran vef.

Ég er nú ófrísk að barni númer tvö.  Fyrir á ég 4 og ½ árs gamalt barn. Fæðing þess barns gekk ekki eins og best verður á kosið. Ég gekk tæpar tvær vikur fram yfir og þegar kom að fæðingunni gekk allt mjög hægt fyrir sig. Ég var með mikla verki og útvíkkun gekk afar hægt og á endanum var barnið tekið með keisaraskurði enda komin mikil fósturstreita hjá því. Ég er hvött til þess að reyna að fæða barn númer tvö eðlilega og vil gera allt sem ég get til þess að næsta fæðing gangi vel fyrir sig. Ég hef fengið þær upplýsingar að fæðingarstellingin að sitja á hækjum sér geti aukið grindarmálið um allt að 2 cm og vil ég gjarnan prófa þessa stellingu. Hins vegar er ég bæði komin með gillinæð og æðahnúta í spöngina. Er þá þessi stelling ekki æskileg fyrir mig? Eru meiri líkur á að konur rifni illa og fari illa í spönginni noti þær þessa stellingu?

Með bestu kveðju.


Sælar og takk fyrir að leita til okkar!

Það að fæða sitjandi á hækjum sér hefur verið talin mjög góð fæðingastelling, þar sem þyngdarlögmálið vinnur með þér.  Hins vegar krefst þessi aðferð það að konur séu í góðri þjálfun, því það getur verið þreytandi að húka lengi í rembingnum í þessari stellingu. Ekki eru þekktar heimildir fyrir því að þessi stelling fari illa með spöngina, síður en svo. Hins vegar hefur maður séð auknar rifur er konur sitja á stól í rembingnum vegna þess að setan getur minnkað blóðflæði til spangarsvæðisins. 

Vonandi svarar þetta spurningu þinni og afsakaðu hve svarið kemur seint.

Kveðja,

Steina Þórey Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
14. desember 2006.