Að skorða sig rétt

09.04.2008

Sæl og takk fyrir frábæran vef!

Ég er komin rúmlega 38 vikur og barnið var búið að skorða sig fyrir þremur vikum sem ég er mjög ánægð með. Allt í einu samt hef ég áhyggjur af því að það sé ekki rétt skorðað. Hef heyrt af tveim nýlegum tilfellum þar sem barnið var skorðað en við fæðingu kom í ljós að það sneri vitlaust og báðar fæðingarnar enduðu í bráðakeisara eftir 30 klukkutíma. 

Af hverju er ekki tékkað á því í mæðraskoðun eða í sónar (og þá konur bara látnar í 3. sónarinn) til þess að tékka á hvort barnið hafi skorðað sig rétt og ef ekki, þá væri hægt að ákveða keisara fyrirfram í stað þess að enda í bráðakeisara eftir 30 tíma erfiði? Er einhver möguleiki á því að það eigi eftir að færa sig rétt ef það byrjar á því að skorða sig vitlaust? (því ég veit að það er reynt að grípa sem minnst inn í).

Kveðja, Anna Sigurðardóttir.


Sæl Anna!

Nú er ég ekki alveg viss um hvað þú átt við en barn getur t.d. skorðað sig skakkt, það getur skorðað sig í svokallaðri framhöfuðstöðu eða stöðu sem hefur tilhneigingu í þá átt. Einnig getur barn skorðað sig í sitjandi stöðu. Það er alls ekki víst að fæðingin verði erfið eða þurfi að enda með keisara þrátt fyrir að barn skorði sig ekki „rétt“ og því væri ekki gagnlegt að kanna þetta með sónar. Ef grunur er á sitjandi stöðu eru konur yfirleitt sendar í sónar til að kanna það nánar. Þú getur lesið um framhöfuðstöðu og sitjandi fæðingu í öðrum svörum hér á vefnum svo ég læt þetta duga í bili.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
9. apríl 2008.