Aðstaða á fæðingardeildinni í Reykjavík

07.09.2008

Góðan dag!

 

Ég bý úti á landi en þarf að fara til Reykjavíkur til að eiga. Nú var ég að velta fyrir mér hvernig aðstaðan er á fæðingardeildinni, s.s. aðgangur að fæðingarlaugum og hversu stórar þær eru, aðgangur að sturtu og klósetti frá fæðingarstofunni. Er hægt að dimma ljósin og spila tónlist og hvaða hjálpartæki eru á stofunum, s.s. grjónapokar og fleira.

 

Með kveðju, ein ólétt.


 

Sæl og blessuð!

 

Á fæðingardeild Landspítala eru baðkör á þrem fæðingastofum. Þau eru mismunandi stór, það minnsta er á stærð við stórt hornbaðkar en það stærsta minnir meira á heitan pott. Á hverri stofu er aðgangur að klósetti og sturtu. Það er hægt að stjórna lýsingunni með „dimmer“ og svo eru líka litlir lampar sem gefa þægilega birtu. Sem dæmi um hjálpartæki, þá er nuddolía og lítill grjónapoki á hverri stofu og hægt að sækja stóra grjónasekki inn á stofuna ef þú hefur áhuga á því. Það er útvarp og geislaspilari á hverri stofu og tónlistin er í þínum höndum. Þú getur fundið nánari upplýsingar um aðstöðuna á fæðingardeild Landspítala í bæklingi um deildina.

 

Gangi þér vel.

 

Kær kveðja,

 

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
7. september 2008.