Spurt og svarað

29. desember 2007

Bíltúr á holóttum vegi til að koma sér af stað!

Góðan daginn og takk fyrir góðan vef!

Nú langar mig að spyrja að einu varðandi það þegar konur eru að reyna að koma sér af stað.
Mér finnst vera ansi mikið um það að konur tali um að fara að keyra á holóttum vegi í tilraun til þess. Ég hélt að það gæti valdið fylgjulosi, eða er það vitlaust hjá mér?

Eru ekki mikilvægar þessar 40 vikur í meðgöngunni? Þó að barnið sé fullburða við viku 37 er það ekki betur í stakk búið að fæðast 3 vikum seinna? Mér finnst nefnilega sumar óléttar konur, sem eru skiljanlega orðnar þreyttar á endasprettinum, vilja komast af stað jafnvel frá viku 36 og það stingur mig dálítið.

Ég vona að þið getið svarað fljótlega.

Kveðja.


Sæl og blessuð!

Ég hef ekki trú á því að bíltúr á holóttum vegi geti komið af stað fæðingu. Þetta er eitt af þessum gömlu húsráðum sem margir trúa á. Hér á síðunni er umfjöllum um nokkur helstu húsráðin en þar var einmitt spurt um það ráð „að standa á tám og skella sér niður“ sem virðist vera af svipuðum toga og bíltúr á holóttum vegi.

Ég hef heldur ekki trú á því að bíltúr á holóttum vegi geti valdið fylgjulosi en það er auðvitað fræðilega mögulegt.

Eins og þú sérð þá hef ég alls ekki áreiðanleg svör við þessum fínu spurningum þínum og við verðum bara að vona að konur láti nú bara skynsemina ráða hvað þetta varðar.


Kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
29. desember 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.