Spurt og svarað

22. desember 2006

Blæðingahætta við tvíburafæðingu

Sælar og takk fyrir æðislegan vef.

Mig langar að spyrja ykkur um fæðingar hjá tvíburum, þá tvíeggja. Málið er að ég á tvö önnur börn fyrir. Í fyrstu fæðingunni dróst legið svo illa saman eftir að fylgjan var komin að ég missti 1.500 ml af blóði og varð mjög slöpp. Í næstu fæðingu var þetta vandamál vitað og þegar önnur öxlin var komin út var mér gefið samdráttarlyf og aftur þegar fylgjan var komin og gekk það bara vel.  Það sem ég er mikið að hugsa núna er þetta: Þegar það eru tvíeggja tvíburar fæðist þá annað barnið og fylgjan þess á eftir og svo hitt eða koma bæði börnin út og fylgjurnar svo á eftir? Ég er að hugsa ef önnur fylgjan kemur á undan seinna barninu þá hef ég áhyggjur af blæðingu, veit að þetta er orðið langt en vonandi getið þið sagt mér eitthvað.

Takk fyrir.


Sæl og takk fyrir að leita til okkar!

Í tvíburafæðingu er reynt að fyrirbyggja það að konunni blæði of mikið með því að gefa sterkt samdráttarlyf (líklega það sama og þú fékkst síðast) strax eftir fæðingu seinna barnsins því fylgjurnar fæðast eftir að seinna barnið fæðist. Í ljósi þess að mikið hefur blætt hjá þér í þinni fyrstu fæðingu verður örugglega passað mjög vel upp á þetta og allar öryggisráðstafanir viðhafðar. Vonandi eru upplýsingar um þetta skýrar í mæðraskránni þinni svo að ljósmæður og læknar sem hugsa um þig á fæðingadeildinni sjái strax hver saga þín er.

Það hjálpar einnig að fá annað eða bæði börnin í fangið þegar þau eru bæði fædd því það getur örvað þína eigin hormónaframleiðslu, sérstaklega ef annað barnið tekur brjóst (það er til of mikils ætlast að þú getir lagt bæði börnin á brjóst strax eftir fæðingu). Einnig skiptir máli að andrúmsloftið á fæðingarstofunni sé rólegt og yfirvegað og að þér líði vel.

Vona að þú hafir ekki miklar áhyggjur af þessu og að allt gangi vel.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
22. desember 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.