Blæðingahneigð og deyfingar

25.07.2006

Sælar!

Ég er með blæðingarhneigð og var að velta fyrir mér hvernig þetta færi allt saman fram. Mér finnst allir vita agalega lítið um þetta. Ég veit ég þarf að eiga í Reykjavík þar sem ég bý út á landi en ég var að spá með deyfingarnar, ef ég get ekki fengið mænurótardeyfingu vegna blæðingarhættu, hvað ætti ég þá að kynna mér í staðinn?

Kveðja, ein kvíðin.


Sæl og takk fyrir að leita til okkar!

Þó svo ég viti það ekki með vissu en þá getur þú líklega ekki fengið mænurótardeyfingu (utanbastsdeyfingu) ef blóðstorkukerfið þitt er ekki í lagi. Þetta verður svæfingalæknir að meta. Þó að notkun mænurótardeyfinga sé orðin þó nokkur þá eru mun fleiri konur sem fæða án þess að fá slíka deyfingu. Það eru margir kostir fyrir þig og þú getur m.a. lesið hér á síðunni um náttúrulegar leiðir til verkjastillingar og verkjastillingu með lyfjum.

Gangi þér vel.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
25. júlí 2006.