Blóðtappar í fylgju

17.08.2006
Hæ hæ!
Ég greindist með háþrýsting á meðgöngu í kringum 33. viku. Þrýstingurinn var svo hár það sem eftir var meðgöngunnar og var ég lögð inn vegna þessa.  Ég gekk framyfir með barnið og við 41. viku var ég send suður (er úti á landi) til þess að fara í gangsetningu. Þegar ég kom suður kom í ljós að barnið hafði það ekki gott og var því tekið með keisara stuttu eftir að ég kom á sjúkrahúsið. Þegar ljósmóðirin skoðaði fylgjuna sá hún tvo blóðtappa í henni. Það sem ég er að velta fyrir mér er hvaða áhrif þessir blóðtappar geta haft?


Sælar og takk fyrir að leita til okkar

Þegar blóðþrýstingur verður of hár á meðgöngu ásamt próteinleka í þvagi eru það einkenni um meðgöngueitrun.  Þess vegna er mjög mikilvægt að konan hvíli sig og taki það rólega svo blóðþrýstingurinn haldist lægri.  Oftast sér maður einmitt þessi merki háþrýstings á fylgjunni ásamt því að hún geti verið kölkuð. Þau börn þar sem móðir er með meðgöngueitrun eru oft léttari miðað við meðgöngulengd, þar sem þau hefðu getað haft það betra á meðgöngu. Það eru algengustu fylgikvillar meðgöngueitrunar. Með þéttu eftirliti og innlögn er fylgst vel með líðan móður og barns til að tryggja öryggi barnsins.
Hins vegar sér maður líka stundum þessa blóðtappa í fylgju eftir fæðingu án þess að getað tengt það við eitthvað óeðlilegt.
Með bestu kveðju
Steina Þórey Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
17.08.2006.