Brettist upp á leghálsinn!

08.09.2006

Góðan dag!

Ég er ófrísk að öðru barni mínu og langar að spyrja: Af hverju það brettist upp á leghálsinn hjá mér í fyrri fæðingunni hjá mér? Nú er ég búin að vera að ræða þetta við vinkonur mínar, en engin af þeim kannast við þetta. Þetta gerðist nokkrum sinnum, og var dálítið óþægilegt því að ljósmóðirin var með hendina uppi á meðan hríðarnar voru til að bretta hann niður. Af hverju brettist hann upp og af hverju þarf að halda honum niðri í hríðunum, gengur hann ekki sjálfur til baka? Er líklegt að þetta gerist aftur, eða gerist þetta kannski hjá öllum?

Kær kveðja, Kristrún.


 

Sælar og takk fyrir að leita til okkar!

Við könnumst ekki við að það brettist upp á leghálsinn. Hins vegar er það eina sem mér dettur í hug er að halda við leghálsbrún. Þá er ljósmóðirin með fingurna upp í fæðingaveginum þegar hríð er og heldur við brúnina.  Þetta er stundum gert ef útvíkkun er um 9 cm og það er fyrirstaða í leghálsbrúninni. Þá er hægt að reyna að halda við hana á meðan konan rembist niður og þá gefur oftast leghálsinn sig og útvíkkun klárast. Konum finnst þetta oft frekar óþægilegt, en þetta er bara reynt yfir 2-3 hríðar ef brúnin gefur sig ekki þá er reynt að halda aftur að rembingnum og gefinn meiri tími fyrir útvíkkunina að klárast. Einnig fáum við konur oft til að breyta um stellingu í lok útvíkkun til að fá meiri þrýsting á leghálsbrúnina. Það þarf ekkert að vera að þú þurfir að lenda í þessu aftur í næstu fæðingu. Vonandi hjálpar þér þetta eitthvað og gangi þér sem allra best í fæðingunni.

Kveðja,

Steina Þórey Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
8. september 2006.