Spurt og svarað

12. júlí 2011

Dauðlangar í keisara næst

Þetta er búið að hvíla á mér í marga mánuði, eða síðan ég ákvað að eignast annað barn. Ég er núna komin 7 mánuði á leið, á stelpu fyrir. Mín upplifun af fæðingu er ógeðsleg hreinlega. Þegar ég átti stelpuna þá voru kannski verkirnir ekki svo slæmir, líklegast bara svona eins og gengur og gerist hjá flestum konum, en fæðingin sjálf fannst mér ganga mjög illa og lætur mig kvíða svo svakalega fyrir. Hún var tekin með sogklukku. Ég gat ekki gengið í mánuð vegna verkja í læri þar sem ég var með bólginn æðahnút sem hefur harðnað svona svakalega í rembingnum. Ég fékk gyllinæð og mér var svo illt í bæði rassinum og saumunum eftir fæðinguna að ég þurfti að gefa dóttir minni að drekka liggjandi í rúma tvo mánuði því ég gat ekki setið. Ég varð hreinlega þunglynd þannig að ég vildi t.d. ekki fá fólk í heimsókn til mín, því mér var alltaf svo rosalega illt. Ég var samt ekki með eitthvað sérstakt fæðingarþunglyndi gagnvart t.d barninu eða að nenna ekki neinu. Mig dauðlangaði til að sitja í bíl og fara eitthvað en gat það ekki. Þegar ég labbaði úti með vagninn þá þurfti ég að taka hænuskref því mér var svo illt.

Nú dauðlangar mig og það myndi létta alvega svakalega undir mér að fá að fara í keisara þó svo það sé ekki undankomuleið þá veit ég samt að ég myndi njóta tímans fram að fæðingu og eftir mikið betur. Get ég talað við ljósmóðurina mína og sagt henni hvernig mér líður eða verð ég að eiga á eðlilegan hátt?


Sæl og blessuð og takk fyrir að senda okkur fyrirspurn!

Það er mjög leitt að heyra af þessari reynslu þinni, sem betur er svona reynsla ekki algeng. Fyrsta skrefið fyrir þig er einmitt að ræða málið og því er um að gera að ræða sem allra fyrst við ljósmóðurina þína. Ef þú býrð á höfuðborgarsvæðinu þá gætir þú einnig nýtt þér þjónustu sem Landspítalinn býður upp á og kallast „Ljáðu mér eyra”. Þar er boðið upp á viðtal þar sem ljósmóðir og fæðingarlæknir fara með konu og hennar maka í gegnum erfiða fæðingarupplifun. Hægt er að fá upplýsingar um þessa þjónustu á heimasíðu Kvennasviðs LSH og hægt að panta tíma alla virka daga frá kl. 08:00-16:00 í síma 543 3265, 543 3266.

Ég hvet þig til að ræða málin sem fyrst og vona að þú eigir eftir að fá góða hjálp.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
12. júlí 2011.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.