Deyfisprey á spöng

07.10.2008

Sæl!

Ég átti mitt þriðja barn fyrir stuttu og gekk fæðingin vel. Ég var sett af stað þegar ég var gengin 13 daga framyfir áætlaðan fæðingardag. Fæðingin tók einungis 4½ klst. eftir að ég hafði fengið stíl. Ég fékk engin verkjalyf enda hafði ég ekki þörf fyrir þau en það sem ég hefði gjarnan viljað fá var deyfisprey á spöngina en það var mjög mikill sviði í spönginni þegar ég var að rembast og fyrst á eftir fæðinguna. Ég hafði ekki fundið fyrir þessu í fyrri tveimur fæðingunum, kannski vegna þess að þær tóku lengri tíma. Ég vissi ekki af þessum spreymöguleika fyrr en vinkona mín sagði mér frá því eftir fæðinguna að þegar hún átti þá hefði ljósmóðirin hennar stöðugt verið að spreyja deyfingu á spöngina þannig að hún fann engan svona sviða. Fæðingin gekk vel en hefði verið enn betri ef ég hefði losnað við þennan sviða. Ég vil með þessu vekja athygli ófrískra kvenna á þeim möguleika að fá sprey sem deyfir spöngina og minnkar sársaukann.

Eða er slíkt sprey ekki alveg skaðlaust?


Sæl og blessuð!

Deyfisprey virkar þannig að það frásogast á því svæði sem því er spreyjað á og deyfir þannig svæðið. Þegar spreyið kemst í snertingu við slímhúð eða rofna húð fylgir því oft sviði til að byrja með svo það er ekki víst að þú hefðir losnað við sviðann þó svo að þú hefðir fengið spreyið og jafnvel hefði sviðinn geta magnast upp fyrst í stað. Sumum konum finnst þetta hjálpa og öðrum ekki. Það getur líka hjálpað að biðja ljósmóðurina um að halda við spöngina og einnig má nota heita bakstra til að minnka sársaukann.

Deyfisprey er langt frá því að vera einhver töfralausn en getur ef til vill hjálpað í einhverjum tilvikum og á að vera óhætt að nota við þessar aðstæður.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
7. október 2008.