Spurt og svarað

20. júní 2006

Einn í útvíkkun

Ég geng með  mitt fyrsta barn og er komin 38 vikur og  2 daga. Ég er búin að vera með samdrætti lengi ekki mjög sára bara óþægilega og fæ þá mjög oft í svona 30-50 sekúndur stundum bara 6 min á milli voða misjafnt og þeir versna ekkert að ráði þannig að ég er nú kannski ekki komin í fæðingu en svo er málið ég er komin með einn í útvíkkun en spurningin er þessi getur maður verið með það lengi með fyrsta barn eða fer þetta að fara að koma er orðin leið á þessum verkjum fara samt versnandi með degi hverjum bara svo lítill munur en núna í nótt þá var ég með svo mikla stingi sem komu í leggöngin alla nótt og barnið var alltaf á flakki og ýtti alltaf á þarna niðri þannig að ég fékk svona mikla stingi. Er að opnast meira þá núna? Hvað er hægt að vera með einn í útvíkkun lengi með fyrsta barn?


Sælar, takk fyrir að leita til okkar og vonandi berst svarið ekki of seint

Það er rétt hjá þér að þú ert greinilega ekki komin í fæðingu, en til þess að svo sé þá þurfa hríðarnar að standa yfir lengur 45-60 sek. og vera allar sterkar og að bilið á milli þeirra styttist niður í tvær mín. á milli.  Þessi rólegi fasi fæðingarinnar sem þú ert á getur verið þreytandi fyrir konuna þar sem hún er alltaf að setja sig í fæðingagírinn!  Það að vera með einn í útvíkkun getur staðið yfir í nokkrar vikur.  Þar sem það þarf ákveðna krafta til að koma fæðingunni í „aktívan“ fasa þá gerist lítið þangað til.  Það sem þú getur gert er að reyna að hvílast eins vel og hægt er.  Þú getur reynt slökun þegar þú ert að fara að sofa eða talað við ljósmóðurina þína og athuga með að fá verkjatöflur ef þú nærð ekki að hvílast.  Einnig getur verið gott að fá nálarstungur en mjög margar ljósmæður geta veitt þá meðferð.

Ég vona að þetta hjálpi þér eitthvað.

Kveðja,

Steina Þórey Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
20. júní 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.