Er algengt að konur kúki í fæðingu?

13.09.2011

Maður er alltaf að heyra um það að konur kúki þegar þær eru að fæða barn. Er það algengt?


Sæl!

Stundum er það þannig að áður en hríðarnar byrja eða við upphaf þeirra verður nokkurs konar hreinsun, þ.e. konan fær linar hægðir eða jafnvel niðurgang. Þetta getur verið eitt af einkunnum þess að fæðing sé að fara af stað. Það er nokkuð algengt að konur kúki þegar þær eru að eiga barn því þegar barnið er að fæðast þá þrýstist allt sem er í endaþarminum út, á undan barninu. Ef kona sem er að fara að fæða hefur ekki haft hægðir nýlega getur hún fengið svokallað „Klyx“ en það smá innhelling í endaþarminn sem kemur af stað hægðalosun. Það er um að gera að ræða þetta við ljósmóðurina ef þetta er áhyggjuefni. Okkur ljósmæðrunum finnst hins vegar ekkert eðlilegra en að kona hafi hægðir rétt áður en hún fæðir barnið sitt og ekkert til að hafa áhyggjur af.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
13. september 2011.