Er glaðloft í Hreiðrinu?

05.01.2008

Sælar!

Ég var að lesa hjá ykkur um Hreiðrið. Ég er komin 38 vikur en er ekki alveg viss hvort ég ætla að reyna við Hreiðrið eða ekki. Ég fór á kynningu á fæðingarstofurnar en man ekki allt. Er glaðloft á Hreiðrinu? Ég vil helst eiga möguleikann á baði ef það er möguleiki þar sem ég hef haft verki í grindinni (þó það verði ekki glaðloft). Á hvorum staðnum er líklegra að maður hafi möguleika á því?

Með fyrirfram þökk. Ein að pæla!


Sæl og blessuð!

Í Hreiðrinu eru 2 fæðingarstofur, báðar með baði og glaðlofti. Á fæðingardeildinni eru 6 fæðingarstofur, allar með glaðlofti en þrjár með baðkari. Það fer auðvitað eftir því hvað er að gera á deildunum þegar þú byrjar í fæðingu. Það er ágætt að láta vita um þínar óskir þegar þú hringir til að tilkynna komu þína í fæðingu og þá verður reynt að koma til móts við þær, annað hvort á fæðingardeildinni eða í Hreiðrinu. Ef þú ætlar þér frekar að fæða í Hreiðrinu þá hringir þú þangað (543-3250) en ef þú stefnir að því að fæða á fæðingardeildinni þá hringir þú þangað (543-3049 eða 543-3247).

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
5. janúar 2008.