Er klippt of snemma á naflastrenginn?

21.02.2007

Sæl og takk fyrir frábæran vef, ég leita mikið í hann.

Langaði til að forvitnast varðandi fylgjuna og naflastrenginn, heyrði einhvers staðar að í fæðingu ætti maður að bíða með að klippa á strenginn þangað til að hjartslátturinn í honum væri horfinn því það væri sá tími sem tæki að „flytja lífið“ eða einhver nauðsynleg efnið frá fylgju yfir til barnsins?

Hefurðu eitthvað heyrt um þetta?

Er ekki frá því að þetta hafi verið sagt orsök hárrar tíðni ofvirkni og athyglisbrests að klippt hafi verið of snemmt á?

Með bestu kveðju, mamma hana Kára.


Sæl og blessuð og takk fyrir að bera upp þessa spurningu!

Mér finnst þetta afskaplega áhugavert og hef reyndar mikinn áhuga á því sem þú spyrð um.

Ástæða þess að mjög oft er skilið á milli strax eftir fæðingu er sú að verið er að beita svokallaðri virkri meðferð á þriðja stigi fæðingar (fylgjufæðing). Virk meðferð er talin draga úr líkum á blæðingu móður eftir fæðingu og felur oftast í sér að skilið er snemma á milli, gefið samdráttarlyf með sprautu í vöðva eða í æð og léttu togi er beitt á naflastrenginn þar til fylgjan er fædd. Andstaðan við virka meðferð er að láta náttúruna ráða ferðinni en þá er ekki skilið á milli fyrr en fylgjan er fædd, ekki gefið samdráttarlyf og engu togi er beitt á naflastreng. Stundum er farið þarna mitt á milli með því að skilja á milli þegar sláttur er hættur í streng.

Það sem við vitum er að mjög líklega erum við að draga úr blæðingum hjá mæðrum með því að beita virkri meðferð en við vitum ekki hvaða afleiðingar það hefur fyrir börnin. Blæðing eftir fæðingu getur vissulega verið alvarleg og því má ekki vanmeta þessar aðgerðir til að draga úr blæðingum. Það er þó ekki þar með sagt að beita þurfi virkri meðferð á þriðja stigi hjá öllum konum. Ég þekki ekki til rannsókna sem hafa kannað langtímaáhrif þessa s.s. ofvirkni eða athyglisbrest en þetta er vissulega áhugavert. Rannsóknir sem gerðar hafa verið á þessu sviði hafa t.d. sýnt fram á að það er heislufarslega hagkvæmt að skilja seint á milli þegar um fyrirburafæðingu er að ræða því þeir fyrirburar fá síður heilablæðingar, sýkingar og þurfa síður blóðgjöf á fyrstu mánuðum ævinnar. Ekki hefur verið sýnt fram á það að fullburða börn „græði“  á því að skilið sé seint á milli eins og sýnt hefur verið fram á með fyrirbura en þau „tapa“ alla vega ekki neitt á því.

Ég vil hvetja konur til að kynna sér þessi mál og fá að vera með í ráðum um það hvernig meðferð er háttað á þriðja stigi fæðingarinnar.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
21. febrúar 2007.