Er stressuð, lendi kannski í keisara!

05.01.2009

Sælar!

Ég er komin 35 vikur með mitt annað barn og mig kvíðir alveg hrikalega fyrir fæðingunni, eða réttara sagt, kvíði því að þetta verði keisari. Fyrri fæðing gekk mjög vel og mig er búið að hlakka til þessarar fæðingar alla óléttuna. En nú er drengurinn minn sitjandi og í þokkabót ansi stór, læknirinn sagði við mig að hann byggist við 20 marka barni! Ég fékk nett taugaáfall, þar sem fyrra barnið mitt náði rétt 11 merkum. Meðgangan hefur gengið mjög vel, bara hugsanlegur keisari sem hræðir mig.
Hvernig eru keisarar núna? Er skorið á magavöðvana? Hvað er maður lengi að jafna sig? Ég geri mér grein fyrir að það sé alveg möguleiki á að barnið snúi sér, en málið er líka að ég er með krappan náraboga, og ég er ekki að sjá það að ég geti fætt 20 marka barn. Hvernig er þá staðan, er maður sendur í fyrirfram keisara eða er þetta bara látið koma í ljós þegar maður er kominn af stað?

Afsakið spurningaflóðið, er bara orðin dálítið stressuð yfir þessu.

Með von um fullt af svörum, febrúarbumba.


Sæl febrúarbumba!

Það eru nú ansi miklar líkur á því að barnið snúi sér þar sem þú ert ekki komin nema 35 vikur á leið.

Þú ættir að finna svör við því sem þú spyrð um hér á síðunni:

Keisaraskurður

Ef barnið verður enn í sitjandi stöðu við 37 vikna meðgöngu þá getur þú lesið um Sitjandi fæðingar

Í dag er talið best að láta reyna á fæðingu jafnvel þó að barnið sé talið verið stórt því það er besti mælikvarðinn á það hvort þú getir fætt barnið eðlilega. Á meðgöngunni framleiðir líkaminn hormónið relaxín sem hefur m.a. þau áhrif að liðbönd í mjaðmagrindinni mýkjast upp og gera hana eftirgefanlegri. Höfuðbein barnsins eru ekki gróin saman þannig að kollurinn hefur þann eiginlega að geta mótast á leið sinni í gegn um mjaðmagrindina. Auðvitað hefur stærð barnsins eitthvað að segja í þessu sambandi en þættir s.s. kraftur hríðanna, staða höfuðsins í grindinni og hreyfanleiki konunnar í fæðingu geta einnig haft mikið um það að segja hvort kona geti fætt eðlilega.

Vona að þetti svari spurningaflóðinu ;-)

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
5. janúar 2009.