Spurt og svarað

25. september 2005

Erfið fæðing fyrir 11 árum

Nokkrar spurningar.  Þannig er mál með vexti að ég var að fá fæðingarskýrsluna mína í hendurnar og langaði að spyrja. Hvað þýðir að kollur barns sé við grindarbotninn með þríhyrndu hausamótin fram og til vinstri, Einnig hvað
er shympysunni. Ég tek það fram að ég hef alltaf verið ferlega ósátt við þessa fæðingu sem átti sér stað fyrir 11 árum síðan og ég var 17 ára.  Og sjaldnast
haft samráði við mig eða manninn minn þá.  Hún tók ansi langan tíma en ég bað t.d bara um vatnsbóludeyfingu og fékk hana einu sinni en sé svo í skýrslunni að mér hefur verið gefið eitthvað sem er Phenergan 50 mg og 25 mg (tengist þetta eitthvað sogklukkunni?) eitthvað annað sem byrjar á p mér sýnist það vera petidin en það er gefið í 100mg (er auðvita ekki alveg viss hvort það sé það).  En svo langar mig að vita annað, þegar það er sett upp dripp, fer einhvað annað í gegnum þann legg líka, svo sem verkjalyf eða eitthvað annað?  Eða er maður bara með drippið allan tímann?  Ég er ekkert bitur í dag en var það rosalega eftir að ég átt barnið og eiginlega hafði engann áhuga á því fyrstu dagana eftir þótt það sé ljótt að segja þetta en við erum bestu vinkonur í dag, þetta hafði bara svo  rosalega mikil áhrif á mig þá. Ég á svo tvær aðrar fæðingar að baki sem gengu alveg eins og í lygasögu.  Æi mér þætti voða gott ef þið gætuð svarað þessum spurningum fyrir mig. 

Með fyrirfram þökkum.  Bumba

...........................................

Sæl og blessuð og takk fyrir að senda okkur fyrirspurn!

Mér finnst gott hjá þér að leita eftir svörum við þessum spurningum þínum þó
langt sé um liðið, ef þú ert enn að hugsa um þetta þá er greinilegt að þetta
hefur setið í þér og það hlýtur að vera ástæða fyrir því.

Þegar sagt er að barn sé með höfuð á grindarbotni, er í raun verið að lýsa því hvar höfuðið á barninu sé statt í grindinni á þér,  þ.e. hversu neðarlega það er komið í fæðingaveginn. Þegar kollurinn hvílir á grindarbotn þá er hann komin alla leið og hvílir á grindarbotninum í þér (en grindarbotninn eru mjúkvefirnir sem mynda botninn í mjaðmagrindinni).

Þegar talað er um að þríhyrndu hausamótin séu fram og til vinstri, er verið að lýsa því hvernig kollurinn ár barninu snýr í grindinni. Þegar þríhyrndu hausamótin eru fram, þá snýr hnakkinn á barninu fram sem er æskilegasta stellingin fyrir fæðingu kollsins. Þegar þessi skoðun hefur verið gerð þá hefur kollurinn ekki verið alveg búin að snúa sér og hausamótin eru aðeins til vinstri. En til þess að kollurinn fæðist auðveldlega er hagstæðast að kollurinn sé fullsnúin og hausamótin séu alveg beint fram.

Symphysa er latneska orðið yfir lífbeinið.

Það er örugglega rétt lesið hjá þér að þú hafir fengið Petidín og Phenergan, en það er mjög algengt að gefa þessi tvö lyf saman.

Þegar "dripp" er gefið í æð er lyfið Syntocinon blandað í vökvapoka og gefið í innrennsli í æð. Stundum er gefin aukavökvi í gegnum legginn ef konan þarf meiri vökva af einhverjum ástæðum, eða sýklalyf ef þess þarf. En verkjalyf eru nú sjaldan gefin í slíkan legg, að minnsta kosti ekki á fæðingargangi.   Stundum er drippið í gangi meirpartinn af þeim tíma sem konan er í fæðingu, en stundum er það bara í stuttan tíma.

Ég vona að ég hafi getað svarað spurningum þínum þannig að þú skiljir núna betur fæðingalýsinguna þína. Hikaðu ekki við að senda aðra fyrirspurn ef fleiri spurningar vakna, þú átt rétt á því að vita hvað gerðist í þessari fæðingu.

Bestu kveðjur

Halla Björg Lárusdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir,
19.september 2005.


Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.