Spurt og svarað

03. maí 2006

Eru miklar líkur á að fæða aftur fyrir tímann?

Sælar og þakkir fyrir góðan og upplýsandi vef.

Eru meiri líkur á því að eiga fyrirbura aftur ef fyrri fæðing fyrir tímann hefur enga finnanlega ástæðu? Ég átti barn eftir 26 vikna meðgöngu og fannst engin skýring á því þá. Nú er ég farin af stað með barn númer 2 og hef því eðlilega miklar áhyggjur af því að þetta verði líka fyrirburi. Eru einhverjar tölur sem sýna að ef ein fæðingin ef fyrir tímann þá verði sú næsta líka fyrir tímann? Eru meiri eða minni líkur á því að barnið fæðist eftir 26 vikur eða fyrir?

Með þökk, ein áhyggjufull.


Sæl og takk fyrir að leita til okkar.

Þegar konur hafa sögu um fyrri fyrirburafæðingu á meðgöngu fara þær þéttar í mæðravernd en annars hefði verið. Það er mikilvægt fyrir þig að segja frá því að þú hafir eignast barn fyrir tímann þegar þú kemur í fyrstu skoðun í þessari meðgöngu. Þá mun gamla skýrslan þín vera pöntuð og síðasta meðganga og fæðing vandlega metin og unnið út frá því hvort þurfi að gera einhverjar rannsóknir hjá þér núna.  Það er gert með það fyrir augum hvort það séu einhverjir þættir sem hugsanlega geta framkallað fæðingu fyrir tímann hjá þér núna. Þannig væri hægt að grípa inn í til að koma í veg fyrir hugsanlega fyrirburafæðingu.

Saga um fyrirburafæðingu eykur líkur á fyrirburafæðingu aftur. Talað er um að ef kona hefur fætt tvisvar sinnum barn fyrir tímann aukast líkurnar í 70 % fyrir hverja fæðingu eftir það. Ég gat hvergi fundið einhverja prósentutölu varðandi auknar líkur á fyrirburafæðingu eftir að kona hafi einu sinni fætt barn fyrir tímann.

Ég get ekki séð neins staðar að það séu meiri líkur á að fæða aftur á svipuðum tíma og áður heldur einungis að það séu meiri líkur á að fæða fyrir 37. viku meðgöngu.

Oftast eru orsakir fyrirburafæðinga ekki þekktar, eins og í þínu tilviki, en það eru margir áhættuþættir sem tengjast fyrirburafæðingu, t.d. ýmsir sjúkdómar, sýkingar, blæðingar á meðgöngu, fjölburar, fyrri fyrirburafæðingar, reykingar og andlegt álag svo eitthvað sé nefnt.

Vona að allt gangi vel hjá þér.

Kveðja,

Þórdís Björg Kristjánsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
3. maí 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.